Ný kapella og safnaðarheimili í Keflavík
Í dag, uppstigningardag, mun biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, blessa nýtt safnaðarheimili Keflavíkursafnaðar og vígja hina nýju kapellu. Samkomulag varð um það á aðalsafnaðarfundi að nefna safnaðarheimilið Kirkjulund og kapelluna Kapellu vonarinnar. Nýja safnaðarheimilið myndar lund við kirkjuna og kapellan er vitnisburður vonar er við höldum inn í nýja öld. Það er ánægjulegt og mjög mikils virði að um þessa glæsibyggingu hefur náðst góð sátt Keflvíkinga.Keflavíkurkirkja er aldamótakirkja. Fyrsti vitnisburður um kirkjubyggingu í Keflavík er frá 1888 og enn á ný hlú Keflavíkingar að kirkju og söfnuði við aldahvörf.Athöfnin hefst kl. 14 með hátíðarmessu í Keflavíkurkirkju og henni verður síðan fram haldið í kapellunni og safnaðarheimilinu. Að lokum verður boðið til kaffisamsætis á staðnum.Við þetta tækifæri verður flutt Kantata, kórverk, eftir Eirík Árna Sigtryggsson er hann hefur samið í tilefni vígslunnar við texta Davíðs Stefánssonar og Eiríks Árna. Þá munu listamenn efna til listsýningar í gamla Kirkjulundi í tilefni af 1000 ára kristni á Íslandi.Það er von sóknarnefndar og starfsfólks Keflavíkurkirkju að í Kirkjulundi hinum nýja dafni blómlegt menningar- og trúarlíf og þar verði samfélagsleg málefni rædd af einurð.Allir eru velkomnir að samfagna á uppstigningardag á meðan húsrúm leyfir. Safnaðarheimilið verður opið eftir vígsluna og þá er tilvalið að kveðja gamla Kirkjulund með því að skoða sýningu okkar ágætu listamanna, sjá nýja heimilið og eiga hljóða stund í Kapellu vonarinnar.