Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný hraðhleðslustöð á Fitjum
Gísli Böðvarsson fyllir á í fyrsta skipti á Fitjum.
Miðvikudagur 23. apríl 2014 kl. 11:31

Ný hraðhleðslustöð á Fitjum

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér „áfyllingu“ á nýrri hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar (ON) á Fitjum í Reykjanesbæ.
 
Þetta er fjórða stöð sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu, sem ON opnar síðan í mars. Fyrir er ein við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, önnur hjá BL að Sævarhöfða og sú þriðja við Smáralind. Stöðin við Fitjar er opnuð í samstarfi við Fasteignafélagið Reiti, sem er eigandi húsanna að Fitjum. 
 
ON mun taka sex stöðvar til viðbótar í gagnið á næstu vikum á suðvesturhorni landsins.  Á meðfylgjandi korti má sjá fyrirhugaðar staðsetningar þeirra. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu ON, www.on.is.
 
Einungis tekur 20-30 mínútur að hlaða geyma rafbílanna upp í 80%. Stöðvarnar eru fyrstu sinnar tegundar hér á landi, en þekktar erlendis. Þær eru afar einfaldar í notkun og þegar allar tíu hafa verið teknar í notkun geta rafbílaeigendur ferðast um stórt svæði landsins án þess að hafa áhyggjur af straumleysi. 
 
Tæpast þarf að taka fram að græna orkan er bæði ódýr og umhverfisvæn. Rafbílar menga ekki andrúmsloftið. Þeir spara eigendum sínum fjármuni og þjóðarbúinu gjaldeyri.
 
Rafbíll er unaður einn
 
Gísli Böðvarsson, sölustjóri Tryggingamiðlunar Íslands opnaði stöðina í Fitjum. Hann býr í Njarðvík og starfar í Kópavogi.
 
„Ég ek rafbíl daglega á milli heimilis og vinnustaðar og svo í vinnunni. Af reynslunni verður einungis dregin sú ályktun að hvetja beri alla sem geta til að eignast rafbíla! Þeir kosta vissulega talsvert í innkaupi en rekstrarkostnaður er hins vegar hlægilega lítill miðað við bensín- eða dísilbíla. Svo er einfaldlega ofboðslega gott og gaman að keyra rafbíl! Margir halda að rafbíll sé kraftlítill en það er nú aldeilis ekki svo. Hann er afar kröftugur, snar og þýður,“ segir Gísli.
 
„Við áttum fyrir jeppa. Rafbíllinn átti að verða bíll númer tvö á heimilinu en varð fljótlega bíll númer eitt. Ég keyri mikið og fann fljótt að rekstur og viðhald rafbíls kostar nánast ekki neitt. Rafvirki sagði mér að ef ég notaði heimilisrafmagnið eingöngu á bílinn kostaði það álíka mikið og að reka þvottavél. Enginn kvartar yfir rekstrarkostnaði þvottavélar.  Þetta er hiklaust framtíðin. Heimilin spara mikla fjármuni með rafbíl og þjóðarbúið sparar heilmikið þegar sá tími kemur að fjöldi landsmanna ekur um á bílum sem ganga fyrir grænni og umhverfisvænni orku náttúrunnar.“
 
Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land og rekur jarðvarmavirkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjanir í Andakílsá og Elliðaám.

 
Búið að fylla á bílinn.  Gísli Böðvarsson, Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON og Kristjana Ósk Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Reita.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024