Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný heilsugæsla og slysa- og bráðamótttaka
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 15. október 2020 kl. 07:00

Ný heilsugæsla og slysa- og bráðamótttaka

1.100 milljónir til uppbyggingar á innviðum heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Ný heilsugæsla verður í Innri-Njarðvík.

„Þetta eru stór skref rétta átt en við ætlum að halda áfram og klára þá uppbyggingu sem nauðsynleg er til að mæta þörfum Suðurnesjabúa fyrir heilbrigðisþjónustu í heimabyggð,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, en í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir byggingu nýrrar heilsugæslu í Reykjanesbæ fyrir um 700 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að hún verði í Dalshverfi í Innri-Njarðvík og framkvæmdum ljúki árið 2023. Einnig hefur 400 millj. kr. nýlega verið ráðstafað til nýrrar slysa- og bráðamóttöku á HSS.

Heilsugæslan í Reykjanesbæ er nú ein fjölmennasta stöð landsins með um 21 þúsund skráða skjólstæðinga og hefur komufjöldi aukist ár frá ári. Einnig hafa verið um eða yfir 13 þúsund komur árlega á slysa- og bráðamóttöku HSS. Að sögn Markúsar er þörf á enn frekari aukningu í þjónustu en aðstöðuleysi hefur staðið stofnuninni fyrir þrifum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Áætlanir okkar gera ráð fyrir að flytja slysa- og bráðamóttöku, sem og röntgendeild, frá núverandi stað í gömlu sjúkrahúsbyggingunni yfir á jarðhæð D-álmunnar. Með því mun heildarrými slysadeildarinnar um það bil þrefaldast. Við miðum að því að öll aðstaða fyrir skjólstæðinga og starfsfólk verði eins og best verður á kosið. Gert er ráð fyrir að þær framkvæmdir hefjist á næsta ári.“

Markús segir að starfsfólk HSS hafi undanfarið verið að róa öllum árum í þá átt að efla þjónustuna. Ein af forsendum þess sé að byggja upp húsnæði stofnunarinnar, sem hefur ekki tekið mið af stigmagnandi þjónustuþörf á Suðurnesjum í kjölfar mikillar íbúafjölgunar.

„Þessi áfangi í uppbyggingu HSS hefur náðst með miklum stuðningi frá fjölmörgum, ekki síst íbúum svæðisins, sveitarstjórnarfólki, heilbrigðisráðuneytinu og sjálfu Alþingi. Við þökkum fyrir þennan mikla meðbyr sem við höfum fengið í okkar viðleitni til að byggja upp starfsemi HSS til framtíðar. Jafnframt vonumst við til þess að fá áframhaldandi stuðning allra til að halda áfram með uppbygginguna á komandi misserum,“ segir Markús.