Ný gjaldskrá Keflavíkurflugvallar
– styður við vetrarferðamennsku
Ný árstíðabundin gjaldskrá flugvallargjalda á Keflavíkurflugvelli tekur gildi 1. nóvember næstkomandi. Ódýrara verður þá að lenda á flugvellinum á veturna en á sumrin og styður það m.a. við átakið „Ísland allt árið“ sem miðar að fjölgun erlendra ferðamanna utan háannatíma. Með breytingunni er fram haldið innleiðingu á Evróputilskipun um að flugvallargjöld miðist einungis við veitta þjónustu sem áætlað er að komin verði að fullu til framkvæmda á næsta ári.
Við breytinguna munu notkunargjöld flugvallarins lækka að meðaltali um 19% yfir vetrarmánuðina en hækka um 4 – 5% yfir sumarmánuðina. Vetrargjaldskráin tekur gildi 1. nóvember n.k. en sumargjaldskrá tekur fyrst gildi 1. júní 2015 og hafa breytingar því ekki áhrif á komandi sumri.
Gjöld innheimt í samræmi við notkun
Breytingin felur í sér að lendingargjöld flugvéla hækka en heildarfarþegagjöld lækka. Einnig er gerð sú breyting að brottfarargjald verður innheimt af öllum farþegum sem leið eiga um flugvöllinn, bæði á leið úr landi og einnig skiptifarþegum. Brottfaragjald hefur hingað til ekki verið innheimt af skiptifarþegum sem hafa stutta viðdvöl í Atlantshafsflugi en fjöldi þeirra hefur að jafnaði verði milli 400 og 500 þúsund á ári undanfarið. Er áætlað að árlegar viðbótartekjur vegna þessa muni að óbreyttu nema um 250 milljónum króna frá og með árinu 2015.
Veruleg farþegaaukning sem spáð er á næstu árum krefst umfangsmikilla og kostnaðarsamra nýframkvæmda og viðhalds við flugvallar- og flugstöðvarmannvirkji sem gjöldum er ætlað að standa undir.
Gjaldskrárbreytingin hefur verið kynnt flugfélögum sem sinna áætlunarflugi á Keflavíkurflugvelli og hafa þau tvær vikur til þess að gera athugasemdir.