Ný flotastöð í Keflavík?
- Samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna hafa átt sér stað
Bandaríski sjóherinn er að koma aftur til Keflavíkurflugvallar í kunnuglegt verkefni úr kalda stríðinu, að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta. Herinn hefur óskað eftir fjárveitingum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu á fjárlögum ársins 2017 til að endurnýja flugskýli á Keflavíkurflugvelli sem munu hýsa P-8 Póseidon, sem eru arftakar Orion P-3 kafbátaleitarvélanna sem voru staðsettar á Keflavíkurflugvelli á tímum Varnarliðsins. Frá þessu er greint í veftímariti bandaríska hersins, Stars & Stripes.
Utanríkisráðuneytið segir hins vegar í tilkynningu að engar viðræður eigi sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. „Hins vegar er ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hefur breyst mikið á umliðnum árum og, í því ljósi, eins og utanríkisráðuneytið hefur áður greint frá, hafa eðlilega átt sér stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Bandaríski sjóherinn sendir reglulega Orion P-3 til Keflavíkurflugvallar til að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta á Norður-Atlantshafi. Sjóherinn hefur sagt opinberlega að P-8 Poseidon vélarnar komi í stað Orion-vélanna þegar flugskýlin hafa verið uppfærð en samkvæmt frétt Stars & Stripes þarf að endurnýja rafkerfi, gólfefni og almennt standsetja skýlin.
Rússneskra kafbáta hefur undanfarin misseri orðið vart á Norður-Atlantshafi, m.a. við strendur Bretlands, Noregs og Finnlands.
Ríkisútvarpið vakti athygli á því á síðasta ári að áhugi væri á mögulegri endurkomu bandarískra hersveita til Keflavíkurflugvallar. Sjóherinn skoðar nú þann möguleika að koma upp tímabundnu eftirliti með P-8 Poseidon kafbátaleitarvélum sem í dag hafa aðsetur á Sikiley en áherslur bandaríska sjóhersins hafa færst nær Miðjarðarhafi í ljósi ástandsins í þeim heimshluta.
Það sé hins vegar til skoðunar hjá bandaríska sjóhernum að koma upp varanlegri aðstöðu aftur á Keflavíkurflugvelli enda Ísland vel staðsett mitt á milli austurstrandar Bandaríkjanna og Evrópu. Flotastöð á Keflavíkurflugvelli er því aftur inni í myndinni áratug eftir að varnarliðið fór frá Íslandi.