Ný fiskeldisverksmiðja mun rísa á Suðurnesjum
Samningar hafa náðst milli HS Orku og spænska fyrirtækisins Stolt Seafarm, dótturfyrirtækis Stolt Nielsen samsteypunnar, um nýtingu affalls frá Reykjanesvirkjun til fiskeldis. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Stolt Seafarm hyggst ala sólkola til útflutnings, en til eldisins þarf volgt vatn, sem fæst frá virkjuninni. Samningurinn, sem undirritaður var í gær, þýðir að tugir nýrra starfa skapast á Suðurnesjum, fyrst við framkvæmdir og uppbyggingu en síðar við rekstur eldisins.
Albert Albertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri HS Orku, segir við Morgunblaðið að framkvæmdir hefjist hið fyrsta.
„Um leið og öll tilskilin leyfi eru komin þá byrja þeir framkvæmdir. Þetta verður byggt upp í áföngum og árið 2017 verður þetta komið í fullan rekstur ef allt gengur upp.“
Framan af er áætlað að framleiðslan verði um 500 tonn á ári en verði orðin 2.000 tonn árlega frá og með 2017.
Aðspurður hve mörg störf fiskeldið muni skapa segist Albert ekki hafa það á takteinum en þau muni hlaupa á tugum. „Þannig að þetta er tvímælalaust jákvætt fyrir svæðið hér.“