Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný fæðingarlaug tekin í notkun á HSS
Mánudagur 28. ágúst 2006 kl. 17:01

Ný fæðingarlaug tekin í notkun á HSS

Fyrstu vatnsfæðingarnar í nýrri fæðingarlaug hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja áttu sér stað sl. sunnudag. Strákur og stúlka komu í heiminn og sagði Guðrún Guðbjartsdóttir, yfirljósmóðir hjá HSS, að laugin væri kærkomin viðbót við aðstöðuna en vatnsfæðingar hófust hjá HSS árið 1998 í venjulegu baðkari.

„Vatnið er verkjastillandi og konunum mikilsvirði að fá að klára fæðinguna í vatni,“ sagði Guðrún í samtali við Víkurfréttir. Þó eru ekki allar mæður sem mega eða geta átt barn í vatni en til þess þurfa ýmis atrið er varða barn og móður að vera í lagi. Ljósmæður á HSS meta aðstæður hverju sinni.

Konur sem hafa átt barn í vatni vilja nánast undantekningalaust gera það að nýju. „Barninu er engin hætta búin í vatnsfæðingu og það reynir ekki að draga fyrsta andann fyrr en það er komið á yfirborðið,“ sagði Guðrún en ljósmæður taka strax við barninu og færa það upp á yfirborðið til aðhlynningar eftir fæðingu. „Það var einn pabbinn sem fór meira að segja ofan í fæðingarlaugina með konunni sinni,“ sagði Guðrún en fæðingarlaugin minnir einna helst á rúmgóðan heitan pott.

Það var starfsmannafélag ÍAV sem gaf HSS tvær milljónir króna og var hluta af þeirri peningagjöf varið til kaupa á fæðingarlauginni. „Næst á dagskrá er að kaupa hjónarúm inn á fæðingardeildinia fyrir foreldra,“ sagði Guðrún að lokum.

VF-mynd/ Ellert Grétarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024