Ný bæjarstjórn tekin við í Vogum
- Ásgeir Eiríksson endurráðinn bæjarstjóri
Nýkjörin bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga kom saman til síns fyrsta fundar mánudaginn 16. júní 2014. Niðurstöður nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga voru á þá lund að E-listinn fékk fjóra bæjarfulltrúa kjörna og er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. D-listinn fékk tvo menn kjörna og L-listinn einn mann kjörinn.
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar var Ingþór Guðmundsson, oddviti E-listans, kjörinn forseti bæjarstjórnar. Bergur Álfþórsson var kjörinn formaður bæjarráðs. Á fundinum var einnig gengið frá kjöri í nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélagið á aðild að.
Á fundinum var jafnframt gengið frá ráðningu Ásgeirs Eiríkssonar sem bæjarstjóra sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Bæjarstjórn samþykkti ráðninguna samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. Ásgeir hóf störf sem bæjarstjóri hjá sveitarfélaginu í árslok 2011.