Ný aðstaða til rannsókna á smitsjúkdómum í fiski
Ný og fullkomin aðstaða til rannsókna á smitsjúkdómum í fiski var formlega tekin í notkun sl. þriðjudag í Fræðasetrinu í Sandgerði. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Tilraunastöð HÍ í meinafræðum að Keldum og Sandgerðisbær. Undirbúningur og framkvæmdir hafa staðið yfir í um það bil eitt ár.
Sjúkdómar eru mikið vandamál í fiskeldi á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Árið 2009 tók Landsamband fiskeldistöðva saman ítarlega skýrslu um stöðu fiskeldis á Íslandi. Þar var ályktað að rannsóknir á sjúkdómum og vörnum gegn þeim væri eitt allra brýnasta verkefnið í framtíðaruppbyggingu fiskeldis á Íslendi. Það er því mikið gleðiefni að loks sé komin góð aðstaða til smittilrauna með fisk. Skortur á henni hefur komið í veg fyrir að hægt væri að sinna brýnum verkefnum á þessu sviði.
Í hinu nýja rannsóknarrými er unnt að vinna að tveimur óháðum rannsóknum í senn. Í rýminu eru 23 ker 170 til 1000 lítra. Hægt er að stilla bæði hita (0 – 20°C) og seltu (0-34‰) eldisvatnsins. Tvö rannsóknaverkefni, undir stjórn vísindamanna á Keldum, verða sett af stað næstu daga.
Innlendum og erlendum vísindamönnum gefst nú kostur á að stunda rannsóknir í hinni nýju aðstöðu, og nýta hina fjölbreyttu aðstöðu sem er í húsnæðinu en þar eru fyrir Botndýrarannsóknastöðin, Náttúrustofa Reykjaness og Háskólasetur Suðurnesja. Fjöldi doktors- og mastersritgerða hafa verið skrifaðar eftir rannsóknavinnu hjá þeim stofnunum sem eru í húsinu. Fjölmargir aðilar hafa komið að fjármögnun verksins, Menntamálaráðuneytið, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Landssamband fiskeldisstöðva, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Fræðasetrið í Sandgerði og Sandgerðisbær. Auk þessa lagði Íslandsbleikja á Stað í Grindavík til fóðrara.
Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein, ekki síst eldi á bleikju og þorski. Smitsjúkdómar í fiski eru stórt vandamál í fiskeldi. Staðgóð þekking á smitsjúkdómum er forsenda fyrir arðvænlegu fiskeldi. Skortur á rannsóknaraðstöðu sem þessari hefur komið í veg fyrir að hægt væri að sinna mjög brýnum rannsóknum, svo sem bóluefnarannsóknum og faralsdsfræðilegum rannsóknum á ýmsum bakteríum sem sýkja fiska.
Fyrstu tvö verkefnin sem fara í gang og eru farin í gang eru annars vegar faraldsfræðilegar rannsóknir á nýrnaveiki í laxi og hins vegar tilraunir með bóluefni fyrir bleikju.