Fréttir

Nú vantar starfsfólk en fyrir stuttu vantaði vinnu
Guðmundur Pétursson á fundinum í Grindavík. VF-myndir/pket.
Föstudagur 9. október 2015 kl. 15:42

Nú vantar starfsfólk en fyrir stuttu vantaði vinnu

— Eitt stærsta málið hvernig eigi að manna mörg verk sem séu framundan segir Guðmundur Pétursson, formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi

Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) efndu til atvinnumálafundar í Salthúsinu í Grindavík í gær þar sem framtíð í atvinnumála á Reykjanesi var til umfjöllunar. Fundurinn í Grindavík var sá fyrsti á vetrardagskrá SAR en framundan eru fundir í öllum sveitarfélögum Suðurnesja.

Í máli Guðmundar Péturssonar á fundinum, framkvæmdastjóra SAR, kom fram að samtökin hafi verið stofnuð fyrir fimm árum þegar atvinnuleysi á Suðurnesjum var mikið. Þá var ráðist í ýmis verkefni sem nú hafa skapað fjölda starfa og er svo komið að ein af stærri áskorunum fyrirtækja á svæðinu er að fá fólk til vinnu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þetta er fyrsti fundur félagsins á fimm ára afmæli þess. Við ætlum að halda fundi um atvinnumálin í öllum sveitarfélögunum á næsta hálfa ári. Á fundunum munum við upplýsa um stöðu mála á svæðinu en einnig kalla eftir umræðu og hugmyndum. Það er mikilvægt að koma upplýsingum á framfæri og hluti af verkefninu með fundarröðinni er að vinna í því að hafa áhrif á umræðuna sem hefur lengi verið neikvæð um Suðurnesin. Á örfáum árum hafa hjólin farið að snúast mjög hratt okkur í hag og nú þarf að fara að huga að öðrum þáttum sem snýr að því hvernig við ætlum að manna öll þessi stóru verkefni sem eru í farvatninu,“ sagði Guðmundur.

Meðal nýrra verkefna á Suðurnesjum sem hafa farið í gang á undanförnum árum eru gagnaver, framkvæmdir við tvö kísilver og ýmis sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, svo sem Keilir, miðstöð fræða og vísinda að Ásbrú, Codland í Grindavík, Stolt Seafarm á Reykjanesi, þörungarækt, Heilsuhótel Íslands og Íslandshús að Ásbrú. Þá hefði gríðarleg aukning á fjölda ferðamanna til landsins skapað gríðarlega mörg störf á svæðinu. Þannig hafi á örfáum árum orðið viðsnúningur í atvinnumálum á svæðinu.

Guðmundur nefndi einnig að skoða þyrfti vel ýmsar nýjar hugmyndir um flughraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur og um nýjan veg við hlið Reykjanesbrautar þar sem rafmagnsrútur gætu keyrt á 120 km hraða.

Nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis mættu til fundarins og tóku þátt í umræðum. Í máli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, kom fram að þörf væri á hærri launum á Suðurnesjum til að laða að fleira fólk, snúa þyrfti umræðunni Suðurnesjum í hag og bæta ásýnd svæðisins. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, kallaði eftir samstöðu og samvinnu til aðstoðar við Reykjanesbæ við að koma fjármálum sínum í bærilegt horf því kraft skorti á svæðið þegar stærsta sveitarfélagið væri í svo miklum fjárkröggum.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík sagði að styrkja þyrfti ýmsa innviði samfélagsins og tók sem dæmi úr sínu nærumhverfi að hafnarkantar sveitarfélagsins væru orðnir úr sér gengnir og þörf væri á endurnýjun. Auk þess væri mikil þörf á vegabótum á Grindavíkurveginum en hann er orðinn einn sá fjölfarnasti á landinu, en yfir 900.000 ferðir  á ári eru eknar á honum. Er þar mest um þungaflutninga að ræða, annars vegar fisk en hins vegar fólksflutninga í rútum til Bláa lónsins. Hann sagði að svæðið þyrfti að setja markið hátt í gæðum. „Bláa lónið er besta dæmið um það, þar sem hækkandi gjaldskrá og aukin gæði í vöruúrvali og upplifun hafi ekki dregið úr aðsókn,“ sagði Róbert og bætti við að lokum: „Keyrum á gæðum en ekki magni“.

Næsti fundur verður haldinn fimmtudaginn 3. desember í Vitanum í Sandgerði.