Nú blasir veruleikinn við
„Mengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík undanfarnar tvær vikur hefur ekki komið mér á óvart,“ segir Dagný Alda Steinsdóttir, nýkjörinn varaformaður Náttúrusamtaka Suðvesturlands og varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Hún var í hópi fólks sem safnaði undirskriftum í Reykjanesbæ í fyrrasumar gegn byggingu á kísilveri Thorsil sem áætlað er að rísi við hlið kísilvers United Silicon eftir tvö ár. Þó svo að mengunin hafi ekki komið Dagnýju á óvart segir hún ljóst að íbúar hafi ekki verið undirbúnir undir svo mikla mengun frá kísilverinu, enda sýni umræðan á svæðinu að fólk sé hrætt, sérstaklega í ljósi þess að sá ofn sem nú hefur verið kveikt upp í sé sá fyrsti af átta í Helguvík. Kosið var um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík og þar með byggingu kísilvers Thorsil fyrir ári síðan og var þátttakan dræm og naumur meirihluti fylgjandi uppbyggingunni. Dagný segir ljóst að annað yrði uppi á teningnum yrði kosið í dag. „Fólk myndi kjósa gegn stóriðjunni nú þegar veruleikinn blasir við.“
Sem kunnugt er hafa íbúar í Reykjanesbæ fundið fyrir lyktar- og reykmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík því notaður er eldiviður þegar verið er að hita ofn verksmiðjunnar á meðan verið er að baka rafskaut hans. Í yfirlýsingu frá United Silicon, sem birt var í Víkurfréttum í síðustu viku, sagði meðal annars að það sem hefði átt sér stað í verksmiðjunni væri líkt því að kveikt væri í stóru báli, eins og gert er á gamlárskvöld. Orðrétt sagði í yfirlýsingunni að reykurinn frá verksmiðjunni væri „því ekkert hættulegur, enda förum við flest hiklaust með börn okkar á áramótabrennu.“ Aldrei er hættulaust að anda að sér reyk, hvort sem það er frá áramótabrennu eða öðru, segir í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Víkurfrétta um fullyrðingar forsvarsmanna kísilversins.
Í svari Umhverfisstofnunar segir jafnframt að það að fara á áramótabrennu hafi kannski ekki heilsufarsleg áhrif enda sé um afmarkaðan atburð að ræða sem standi yfir í stuttan tíma og yfirleitt standi fólk hlémegin við reykinn til að anda honum ekki að sér. Hættulegustu efnin í áramótabrennum eru svifagnir, kolmónoxíð og ýmis lífræn efni sem myndast við ófullkominn bruna.
Eftir því sem Víkurfréttir komast næst slapp síðast reykur frá verksmiðjunni um síðustu helgi. Upp kom atvik í tengslum við ofn og afsogsbúnað aðfararnótt sunnudags og ekki tókst að koma fullu afsogi á fyrr en um klukkan 13:00 á sunnudag. Á þriðjudag höfðu Umhverfisstofnun borist 49 ábendingar og kvartanir frá almenningi og tengjast þær bæði verksmiðju United Silicon og starfsleyfi Thorsil.
Reykur slapp síðast frá verksmiðju United Silicon um síðustu helgi. Umhverfisstofnun hafa borist 49 ábendingar og kvartanir frá almenningi, bæði vegna kísilvers United Silicon og starfsleyfis fyrir kísilver Thorsil sem áætlað er að rísi árið 2018. Mynd/elg