Notast við hátíðnibylgjur í þrifunum
Félagarnir Steinþór Geirdal og Arnar Sæbergsson reka fyrirtækið Tæknihreinsun í Reykjanesbæ. Steinþór og Arnar hafa flutt til landsins tæki sem byggja á svokallaðri „Ultra Sonic“ tækni sem er umhverfisvænni en flestar aðrar hreinsunaraðferðir sem hingað til hefur verið notast við.
„Ultra Sonic tæknin þarf mun minna magn af hreinsiefnum en margar aðrar hreinsiaðferðir, í staðinn eru hátíðnibylgjur sendar í gegnum hreinsivatnið og sjá þessar bylgjur um hreinsunina,“ segir Steinþór en Tæknihreinsun leggur aðallega áherslu á hreinsun rimlagluggatjalda, silkiblóma, tölvulyklaborða, golfsetta ásamt öðru.
Þessari nýju tækni er einnig hægt að beita við þrif á hlutum eftir bruna en hún er líka sérlega hentug við önnur erfið þrif. Þar sem einungis er notast við hátíðnibylgjur í vatni gefur það auga leið að þessi nýja aðferð er mun umhverfisvænni en margar aðrar.
VF-myndir/ Jón Björn, efri mynd: Steinþór og Arnar. Neðri mynd: Lyklaborð þar sem einungis helmingurinn af lyklaborðinu hefur verið þrifinn.