Nota sömu aðferð á Perlu og Láru Magg
- þétta skipið og dæla úr því sjónum
Það er skammt á milli stórverkefna hjá Köfunarþjónustu Sigurðar ehf. Eins og við greindum frá í síðustu viku tók köfunarþjónustan að sér að ná gömlum fiskibáti, Láru Magg ÍS, af botni Njarðvíkurhafnar eftir að báturinn hafði sokkið þar. Sigurður kafari Stefánsson er nú kominn í samskonar verkefni í Reykjavíkurhöfn, sem þó er allt stærra í sniðum.
Sanddæluskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í gærmorgun eftir að skipið hafði verið sjósett. Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. mætti með sína kafara á svæðið og er nú unnið að því að þétta skipið og undirbúa dælingu úr skipinu.
Sigurður sagði í samtali við Víkurfréttir að sömu aðferð verði beitt í Reykjavíkurhöfn og þegar Láru Magg ÍS var komið af botni Njarðvíkurhafnar í síðustu viku. Þegar skipið hefur verið þétt er smíðaður stokkur á lúgu á skipinu þar sem dælur eru settar niður og sjó verður dælt úr skipinu þar til það fer að fljóta. Sigurður gat ekki sagt til um það hvenær skipinu verði náð upp en það verði a.m.k. ekki í dag.
Hér að neðan má sjá innslag Sjónvarps Víkurfrétta frá því í síðustu viku sem sýnir þegar Láru Magg ÍS var náð af botni Njarðvíkurhafnar. Sama aðferð verður notuð á sanddæluskipið Perlu.