Norrænnir fisktækniskólar í samstarf: Yfirlýsing undirrituð í Grindavík
Forsvarsmenn fjögurra norrænna fisktækniskóla undirrituðu í síðustu viku yfirlýsingu um formlegt samstarf skólanna til næstu ára. Yfirlýsingin var undirrtuð í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Markmið samningsins er að vinna saman að eflingu menntunar og fræðslu á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis í viðkomandi löndum.
Þessu vilja skólarnir ná fram m.a. með samstarfi um þróun námsefnis, miðlun á þekkingu og reynslu, starfsmanna- og nemendaskiptum auk annarra verkefna.
Skólarnir í samstarfinu eru; ATI fiskvinnsluskólinn í Maniitsoq á Grænlandi, Fiskvinnsluskólinn í Vestmanna í Færeyjum, Rygjabö skólinn við Stavanger í Noregi auk Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík.
Skólarnir fjórir fengu nýverið 8 milljóna króna norrænan styrk til þess að vinna að námsefnisgerð vegna meðferðar á afla og er verkefninu stýrt af Fisktækniskóla Suðurnesja. Fleiri verkefni eru í undirbúningi.
Myndin: Frá undirritun samstarfssamnings norrænna Fisktækniskóla:
Aftari röð - frá vinstri: Lárus Pálmasson (Fisktækniskóla Suðurnesja) Kim Lybert (Grænlandi), Ólafur Þór Jóhannsson (formaður stjórnar Fisktækniskóla Suðurnesja), Nanna Bára Maríasdóttir (Fisktækniskóla Suðurnesja), Eivind Böe (Noregi) og Eyðun Leo (Færeyjum).
Sitjandi - frá vinstri: Ole Poulsen (rektor ATI, Maniitsoq) Ólafur Jón Arnbjörnsson (framkv.stj. Fisktækniskóla Suðurnesja), Magnus Mathisen (rektor Rygjabö vgs, Finnöy) og Jákup Andreasen (rektor Fiskvinnuskúlin, Vestmanna).
www.grindavik.is