Norrænir ráðherrar funda um öryggissamvinnu á Ásbrú
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur á móti norrænum utanríkis- og varnarmálaráðherrum í Reykjanesbæ nú á eftir þar sem þeir munu eiga sameiginlegan fund. Fundurinn fer fram á Ásbrú.
Á dagskránni er aukið samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum, öryggishorfur á norðurslóðum, þróun Atlantshafsbandalagsins og þátttaka Norðurlandanna í alþjóðlegri friðaruppbyggingu.
Þá munu ráðherrarnir kynna sér fyrirkomulag og framkvæmd norrænu loftvarnaræfingarinnar Iceland Air Meet 2014 en æfingin er liður í auknu samstarfi Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum.