Norrænir leiðtogar funda í Bláa Lóninu
Norrænu forsætisráðherrarnir og leiðtogar norrænna sjálfsstjórnarsvæða munu þinga hér á landi dagana 26.-27. febrúar. Þingið fer fram í Bláa Lóninu og í Eldborg í Svartsengi.
Forsætisráðherrarnir fimm og leiðtogar sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands, Færeyja og Álandseyja sækja þingið ásamt forystumönnun atvinnulífs á Norðurlöndum, fulltrúum fjölmiðla, borgarasamtaka og rannsóknastofnana. Alls sækja um 160 gestir ráðstefnuna.
Það er bæði viðurkenning og gæðastimpill fyrir ferðaþjónustuna á Reykjanesi og þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum að ráðstefna af þessum toga sé haldin á svæðinu. Ferðaþjónusta tengd fundum og ráðstefnum er mikilvægur þáttur þessarar ört vaxandi atvinnugreinar og felur í sér mikil tækifæri og verðmætasköpun.
Auk þess að funda í Eldborg og í Bláa Lóninu mun hluti gestanna gista í Lækningalindinni þar sem blaðamannafundir verða einnig haldnir. Gala kvöldverður verður í hinum nýja og glæsilega veitinga- og veislusal, Lava. Boðið verður upp á hádegsverð í fallegum veitingasal Hótel Northern Light Inn, gistingu á Flughóteli og Hótel Keflavík og skoðunarferð í orkuverið Jörð.
Fjöldi erlendra blaðamanna auk innlendra fréttamanna mun fylgjast með ráðstefnunni. Ráðstefnan er því afar góð kynning fyrir Reykjanesið bæða innanlands og utan.