Norðurljósamynd Ellerts slær öll met hjá National Geographic
- yfir 68.000 like og 18.000 deilingar á tæpum sólarhring.
Náttúruljósmyndarinn Ellert Grétarsson sló í gær öll met hjá hinu virta tímariti National Geographic. Tímaritið hefur á undanförnum misserum birt nokkrar af myndum Ellerts á vefsvæði sínu. Nú síðast fyrir fáeinum dögum setti tímaritið eina af norðurljósamyndum Ellerts á vefinn sinn ásamt nokkrum öðrum norðurljósamyndum í kjölfar mikillar virkni í norðurljósum sem var á dögunum.
Í gær setti National Geographic mynd Ellerts á Facebook-síðu sína og þá ætlaði allt um koll að keyra. Þar segir „Brilliant auroras blanket the skies above the Reykjanes peninsula in Iceland.“ Nú er ekki liðinn sólarhringur síðan myndin var sett inn og þegar hefur hún fengið yfir 68.000 „like“. Þá hefur myndinni verið deilt yfir 18.000 sinnum og þegar þetta er skrifað hafa yfir 1400 skrifað færslu við myndina. Þær eru allar á einn veg. Fólk lýsir hrifningu sinni á norðurljósunum og margir segjast vilja koma til Íslands og upplifa þetta náttúrufyrirbrigði.
Það má vera ljóst að norðurljósamyndin sem Ellert Grétarsson tók á Reykjanesi um þarsíðustu helgi er gríðarleg landkynning fyrir Ísland og ekki síst Reykjanesskagann. Viðbrögðin sem myndin hefur fengið virðast miklu meiri en nokkur önnur mynd hefur fengið á fésbókarsíðu National Geographic.
Hér má sjá færsluna á vegg National Geographic.