Norðurljósabærinn Garður
– Yfir 100.000 ferðamenn sækja Garðskaga heim á hverju ári
Í Garðinum eru ákjósanlegar aðstæður til að njóta norðurljósa. Garðskagi er vinsæll áfangastaður þar sem langferðabílar koma fullir af ferðamönnum á kvöldum þegar norðurljósa er von. Síðasta vetur voru dæmi um að yfir 20 langferðabílar væru á Garðskaga á sama tíma í norðurljósaferðum. Þá segja tölur að yfir 100.000 ferðamenn komi árlega í Garðinn og á Garðskaga. Nú á að leggja í vegferð að byggja enn frekar upp ferðaþjónustu á Garðskaga.
Á síðasta ári fékk Sveitarfélagið Garður þá Sigurð Þorsteinsson og Jóhann Ísberg til að vinna að stefnumótun í atvinnumálum í Garði með áherslu á ferðaþjónustu. Þeir hafa nú sýnt því áhuga að vinna að frekari uppbyggingu í ferðamálum á Garðskaga með samkomulagi við Sveitarfélagið Garð. Til að vinna frekar að málinu hefur verið stofnað félagið Garðskagi ehf. Norðurljósunum verður gert hátt undir höfði í þeirri uppbyggingu sem framundan er.
Áformin voru m.a. kynnt á íbúafundi í Garðinum á dögunum. Víkurfréttir ræddu við Magnús Stefánsson, bæjarstjóra í Garði, í framhaldi af fundinum.
„Það eru ýmsar hugmyndir sem hafa verið reifaðar. Við erum núna að fara að setja af stað verkefni sem aðilar ætla að taka að sér og verða eins konar staðarhaldarar hér á Garðskaga og halda utan um ferðaþjónustu og starfsemi á þessu svæði,“ segir Magnús í samtali við Víkurfréttir og bætir við: „Við ætlum að vinna að því að auka hér ferðaþjónustu og mæta þar með þörfum mjög margra sem koma hingað á Garðskaga á hverju ári.“
Garðskagi baðaður í norðurljósum.
- Það er mikill fjöldi sem kemur í Garðinn og á Garðskaga á hverju ári.
„Ég hef heyrt tölur um yfir 100.000 ferðamenn á Garðskaga á ári. Það sýnir hvað það er mikil aðsókn að þessu svæði hérna.“
- Hverjar eru þær hugmyndir sem á að vinna með?
„Við höfum þær hugmyndir að leggja áherslu á byggðasafnið okkar og sögu Garðsins, útgerðarsöguna og byggðasöguna. Síðan eru áform um að vera með norðurljósasýningar með fræðsluefni og kvikmyndum. Þeir sem hingað koma geta þá kynnt sér það efni. Þar munum við leggja áherslu á hafið og norðurljósin og að hér verði bær hafsins og norðurljósa.“
- Það er talað um að hér sé gott að horfa á norðurljósin. Hér er ekkert sem skyggir á.
„Hér kemur mikill fjöldi fólks á kvöldin þegar það eru aðstæður til að sjá norðurljós. Hér er lítil ljósmengun og engin fjöll í nágrenninu þannig að hér eru oft góð skilyrði til að sjá norðurljós. Þau dansa hér um himininn við mikla gleði þeirra sem hingað koma.“
- Hversu hratt verður unnið?
„Við erum að horfa fram í tímann með uppbyggingu. Hér er töluvert af húsakosti til staðar. Hugmyndin er að endurskipuleggja það og nýta betur. Við höfum einnig rætt við Vegagerðina um að fá að nýta stóra vitann betur til sýningahalds þannig að það verður væntanlega mikið um að vera þar. Við erum með byggðasafnshúsið sjálft en þar er meiningin að endurskipuleggja safnið og allt sem því við kemur og koma upp norðurljósasýningum. Þá er veitingaaðstaða í húsinu og vonandi tekst vel að vinna úr því þannig að þetta verði okkur til sóma og þeim til gleði sem koma og njóta.“
Byggðasafnið á Garðskaga.
Magnús segir að eitt af aðkallandi verkefnum á Garðskaga sé að bæta verulega salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Sótt hefur verið um í framkvæmdasjóð ferðamannastaða en hugmyndir eru um myndarlega aðstöðu í tengslum við hús byggðasafnsins á Garðskaga.
Síðasta vetur komu þau kvöld að yfir 20 langferðabifreiðar voru á Garðskaga á sama tíma.. Ef sú staða verður uppi áfram gæti þurft að takmarka þann fjölda sem sækir Garðskaga hverju sinni. „Við viljum getað veitt þá þjónustu til þeirra sem koma með þeim hætti að sómi sé að og ekki síst til að vernda svæðið, því Garðskagi er náttúruperla. Með þessari uppbyggingu er verið að tryggja að Garðurinn sé ferðamannastaður allt árið um kring. Hingað er vinsælt að koma yfir sumartímann til að njóta sólarlagsins og ásókn í norðurljósaupplifun hefur aukist mikið síðustu misseri. Það er stutt á Garðskaga frá flugvellinum og einnig frá Reykjavík. Hingað er mikill straumur yfir sumartímann og hér er ævintýralegt að upplifa sólsetrið yfir hásumarið. Það er mikið af fólki sem kemur hingað á Garðskaga til að njóta þess,“ segir Magnús.
– Þið stefnið á að vera Norðurljósabærinn?
„Já, við stefnum á það og ég tel reyndar að við séum það vegna þeirrar ásóknar og aðstæðna til norðurljósaskoðunar. Garðurinn er Norðurljósabærinn með ákveðnum greini,“ segir Magnús bæjarstjóri Stefánsson í samtali við Víkurfréttir.