Nokkuð um óhöpp og slys á Suðurnesjum
Nokkuð hefur verið um slys og óhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á síðustu dögum. Karlmaður sem var á mótorcross hjóli sínu á Sólbrekkubraut fékk hjólið ofan á sig í einu stökkinu og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með sjúkrabifreið.
Umferðarslys varð á Njarðarbraut við Grænásveg þegar bifreið var ekið aftan á aðra kyrrstæða. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á HSS.
Þá hafnaði bifreið utan vegar á Garðvegi þegar ökumaður reyndi að beygja fram hjá fuglum á akbrautinni. Hann og farþegi sem var í bílnum sluppu ómeiddir. Árekstur varð einnig þegar vörubifreið og fólksbifreið skullu saman á gatnamótum í Njarðvík. Ökumaður síðarnefndu fann fyrir eymslum eftir áreksturinn og voru báðar bifreiðirnar óökufærar.
Kona var svo flutt með sjúkrabifreið á HSS eftir að hafa fallið niður stiga. Hún slasaðist en ekki er vitað um líðan hennar.