Nokkrir sendir í skoðun í bílaleiguátaki
Á undanförnum árum hefur lögregla orðið vör við að bílaleigubifreiðar frá einstaka bílaleigum standist ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru almennt til ökutækja. Með auknum straumi ferðamanna hingað til lands eykst vitanlega umferð þeirra um vegi landsins og eftirspurnin eftir bílaleigubílum er nú meiri en oft áður.
Flestar bílaleigur á Íslandi veita fyrsta flokks þjónustu og setja öryggi viðskiptavina sinna í öndvegi. Á undanförnum árum hefur þó borið á einstaka undantekningum frá þessari almennu reglu. Þær undantekningar hafa birst í slysum sem lögregla hefur haft til rannsóknar og kvörtunum sem bæði lögreglu og Umferðarstofu hefur borist.
Einstaka dæmi eru um óviðunandi ástand og viðhaldi bílaleigubíla og rekja má slys og óhöpp til þess og þá sér í lagi lélegra hjólbarða. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Hvolsvelli, Borgarnesi og Dölum sáu sig knúin til að grípa til aðgerða og nú í liðinni viku var haldinn samráðsfundur með aðkomu Umferðarstofu, rannsóknarnefnd umferðarslysa, Aðalskoðunar hf., Frumherja hf. og Vegagerðarinnar en síðastnefnda stofnunin annast útgáfu starfsleyfa bílaleiga og hefur lögum samkvæmt eftirlit með að ákvæðum laga um bílaleigur sé fylgt.
Á næstu mánuðum hyggjast fyrrnefndar stofnanir og fyrirtæki hafa með sér samvinnu um sérstakt átak þar sem gerðar verða skyndiskoðanir á bílaleigubifreiðum. Ætlunin er að kanna ástand þeirra með hliðsjón af þeim reglum sem almennt gilda um skoðunarhæfi bifreiða svo öryggi ferðamanna sé sem best tryggt.
Fyrsti hluti þessa átaks var sl. föstudag þegar öll síðdegisumferð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar var stöðvuð og bifreiðar kannaðar. Þó nokkrir bílar voru teknir út úr röðinni og þeir sendir til skoðunar í sérstakri skoðunarbifreið sem höfð var með í átakið.
Í framhaldi af þessu átaki hefur VÍS í Reykjanesbæ ákveðið að bjóða öllum bílaleigum ser eru í viðskiptum við VÍS og með starfstöð á Suðurnesjum á forvarnarfund. Fundurinn verður í dag.
Frá átaki lögreglu og fleiri aðila í umferðaröryggismálum sl. föstudag. VF-myndir: Hilmar Bragi