Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nöfn hverfanna mikilvæg í markaðssetningu í ferðamennsku
Mánudagur 18. janúar 2016 kl. 15:02

Nöfn hverfanna mikilvæg í markaðssetningu í ferðamennsku

Súpufundur fyrir aðila í ferðaþjónustu var haldinn í Hljómahöll síðasta fimmtudag. Á dagskránni voru ýmis erindi og unnu fundargestir að hugmyndavinnu.

Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála í Reykjanesbæ, fór yfir samtaka sýn á ferðaþjónustu þar sem áhersla yrði á að tala sama tungumál. Þar sagði Hrafnhildur skipta miklu máli hvaða orðfæri aðilar í ferðaþjónustu notuðu við kynningu á svæðinu. Hrafnhildur velti upp þeirri hugmynd að kynna hverfin fjögur sem mynda Reykjanesbæ; Keflavík, Njarðvík, Hafnir og Ásbrú með sinni sérstöðu og leggja áherslu á að þau væru í Reykjanesbæ. Með þeim hætti væri hægt að halda hverfanöfnunum inni en leggja jafnframt áherslu á nafnið Reykjanesbær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

-Þuríður Halldóra Aradóttir, verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness, kynnti Mannamót 2016 sem markaðsstofur landshlutanna standa að og verður haldin í flugskýli flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli 21. janúar. Tilgangur Mannamóts er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu.

Arnar Hafsteinsson, verkefnastjóri leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku hjá Keili, kynnti námið sem unnið er í samstarfi við Thomson Rivers University í Kanada. Hugmyndir spruttu fram um hvernig nota mætti Reykjanesið í vettvangsnám en helstu hindranir eru að hér eru hvorki ár né jöklar, en hvort tveggja er mikilvægt í vettvangsnámi. Sjórinn og hraunið gætu hins vegar nýst.

Eggert S. Jónsson, verkefnastjóri Reykjanes Geopark, fjallaði um jarðvanginn, UNESCO vottunina og sagði frá verkefnum tengdum jarðvanginum. Fram kom í máli Eggerts að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir innan jarðvangsins gætu nýtt sér vottunina í kynningar- og markaðsskyni en hjá öðrum jarðvöngum í heiminum hefur það reynst til framdráttar. Þá er búið að gefa út kennsluefni um jarðvanginn fyrir leikskólabörn og fyrirhugað er að gefa út kennsluefni fyrir grunnskóla- og framhaldsskólanema. Reykjanesbær rekur Gestastofu jarðvangsins í Duus safnahúsum.