Njósnir við Njarðvíkurhöfn brutu gegn lögum
	Falin myndavél á vegum Fiskistofu við Njarðvíkurhöfn fyrr á þessu ári fór gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Víkurfréttir upplýstu um földu myndavélina í febrúar á þessu ári. Vélin var falin í bílaleigubíl og var linsu myndavélarinnar beint að hafnarsvæðinu í Njarðvík. Lögregla var kölluð til, enda mönnum ekki ljóst á þeirri stundu hver væri að afla myndefnis með falinni myndavél.
	
	Nú hefur fallið úrskurður þess efnis að upptökur Fiskistofu í Njarðvíkurhöfn í því skyni að upplýsa grun um meint brot gegn fiskveiðilöggjöfinni fóru gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Fiskistofa skal eyða því efni sem safnað var með upptökunum og að því loknu senda Persónuvernd staðfestingu á að sú eyðing hafi farið fram. Myndefninu skal eytt fyrir 1. nóvember nk.
	
	
	
	Bifreiðin sem myndavélin var falin í.
	 


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				