Njarðvíkurskóli breytir um svip
Stærsta verkefni Eignarhaldsfélagsins Fasteignar á Suðurnesjum þetta árið er viðbygging við íþróttahúsið við Sunnubraut í Keflavík, þar sem verður félagsaðstaða Keflavíkur. Þeim framkvæmdum á að vera lokið áður en skólar hefja starfsemi sína aftur í haust. Hljómahöllin, þ.e. sá hluti sem hýsa mun Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er í biðstöðu vegna efnahagsástandsins og aðrar nýbyggingar eru ekki í gangi. Hins vegar mun félagið setja aukna áherslu á viðhaldsverkefni en Fasteign á byggingar í Reykjanesbæ, Sandgerði og Vogum.
Í sumar verður hugað að stórum viðhaldsverkefnum. Meðal annars verður Njarðvíkurskóli málaður en skólabyggingin hefur vakið athygli fyrir sinn græna lit og hefur verið haft á orði að tvö mannvirki í heiminum sjáist utan úr geimnum. Önnur er Kínamúrinn, hin Njarðvíkurskóli.
Viðar Már Aðalsteinsson, verkefnisstjóri á Reykjanesi hjá Fasteign sagði að nú sé í auglýsingu útboð á almálun utanhúss á skólanum. Í kjölfar íbúafundar fyrir ári síðan var verkefnið sett í hendur nemenda við Njarðvíkurskóla að móta stefnu í því hvernig litavali skólans yrði háttað. Efnt var til samkeppni innan skólans og síðan voru skipaðar dómnefndir til að fara yfir niðurstöður og velja bestu lausnina.
Græni liturinn á Njarðvíkurskóla hefur verið umdeildur frá fyrsta degi. Hann fær þó að halda sér að hluta, m.a. á súlum en hvítir og gráir litir verða ráðandi á nýmáluðum skóla.
Viðar Már segir að gaman hafi verið að vinna með nemendum og skólastjórnendum að litavalinu. Eins og sjá má á mynd sem fylgir þessari frétt, má fólk eiga von á töluverðri breytingu frá því sem nú er.