Njarðvíkurmálinu lokið með dómssátt

Forsaga málsins er sú að eftirlitsmenn frá norsku strandgæslunni fóru um borð í Njarðvík úti á miðunum og á meðan þeir voru um borð í bátnum var nokkrum smáfiskum, sem komu upp með línunni, hent í sjóinn. Útgerð og skipstjóri skipsins héldu því fram að um einstakt atvik hefði verið að ræða og hefði nokkrum fiskum verið sleppt lifandi í hafið. Norska strandgæslan féllst ekki á þessi sjónarmið og voru skipstjóri og útgerð ákærð fyrir stórfellt smáfiskadráp.
Magnús Daníelsson, útgerðarmaður Njarðvíkur, hélt því statt og stöðugt fram að kæran ætti ekki við rök að styðjast og sagðist myndu fara með málið fyrir dómstóla. Í samtali við InterSeafood.com sagði hann að eftir að hafa skoðað málið þá væri skynsamlegast að fallast á dómssátt. Magnús ítrekaði að kæra norsku strandgæslunnar ætti ekki við rök að styðjast og það væri blóðugt að þurfa að sitja undir þessari ákæru en kalt mat segði honum að réttast væri að ljúka málinu hér og nú. Reynslan sýndi að íslenskar útgerðir ættu erfitt með að sækja rétt sinn til norskra dómstóla.