Njarðvíkingar Kjörísmeistarar 2001 - myndasyrpa
Njarðvík vann léttan og öruggan sigur á grönnum sínum úr Keflavík og tryggði sér Kjörísbikarinn í körfu. Lokatölur urðu 109-69.Það var aðeins jafnt í byrjun leiks en eftir það var leikurinn eign Íslandsmeistara Njarðvíkur í Smáranum í Kópavogi í dag en þar voru undanúrslitin og úrslitaleikurinn leikinn. Keflvíkingar náðu sér aldrei á strik á meðan þeir grænklæddu léku við hvern sinn fingur. Það var alveg sama hvað Keflvíkingar reyndu, ekkert gekk og í lokin munaði fjörtíu stigum. Útreið. Fimm leikmenn Njarðvíkur skoruðu yfir tug stiga, Brenton var með 30, Logi 19, Sævar 19 og þeir Friðrik og Ragnar tólf stig hvor. Hjá Keflavik var aðeins Damon Johnson með 24 stig en aðrir leikmenn með undir tíu. „Þetta var nú eitthvað sem maður átti ekki von. Ekki að Njarðvík gæti ekki unnið heldur svona munur“, sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, landsliðsþjálfari og Grindvíkur og Snorri Sturluson, sjónvarpsmaður á Sýn tók undir það. Teitur Örlygsson sagði í spjalli á Sýn eftir leikinn að þetta hefði verið þeirra dagur og strákarnir hans hefðu verið frábærir. „Mér skilst að það sé jafnvel verið að leggja þetta mót niður þannig að það var síðasti séns að vinna þennan bikar“. Keflvíkingum hefur gengið vel en þeir hafa þrívegis sigrað í þessari keppni á undanförnum árum.