Njáll kveður og Hrafn mokar upp fiski
Þá er hann farinn eftir að hafa verið viðloðandi Suðurnes í næstum 40 ár. Já, hann er farinn. Nei, ég er ekki að tala um einhvern mann, ég er að tala um bátinn Njál RE sem hefur verið gerður út frá Sandgerði á dragnót að mestu undanfarin ár. Og áhöfn bátsins var skipuð mönnum að mestu frá Sandgerði. Þannig var Hjörtur Jóhannsson skipstjóri á Njáli RE í yfir 25 ár.
Njáll RE var smíðaður í Hafnarfirði árið 1980 hjá fyrirtæki sem hét Bátalón. Njáll RE átti sér nokkra systurbáta t.d. Val RE sem er í dag Eiður ÍS og eru þessir tveir bátar nokkuð svipaðir, nema hvað að vélin í Njáli RE er aftur í en í Eiði ÍS þá er vélin fram í. Sömuleiðis þá voru nokkrir minni bátar smíðaðir þarna sem hafa verið á Suðurnesjum, t.d. Sævar KE sem var lengi Hafborg KE og Vonin KE sem Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. á en sá bátur er ekki gerður út til fiskveiða. Auk þess má nefna Ragnar GK sem var gerður út frá Sandgerði í um níu ár.
Njáll mun halda nafni sínu en hefur fengið númerið ÓF 275 og mun því fara norður til veiða á dragnót. Ólafsfjörður kemur kanski ekki mikið í hugann þegar horft er á útgerðarsögu Njáls RE, því báturinn hefur að mestu haldið sig við veiðar við Suðurnes en þó hefur báturinn landað á Ólafsfirði áður. Til að mynda var Njáll RE á reknetum á síld í september árið 1981 og landaði þá 75 tonnum í sextán róðrum og af því þá voru þrettán róðrar á Ólafsfirði.
Árið eftir, 1982, var Njáll RE að landa að hluta í Ólafsfirði, þar sem hann var á síldveiðum og var þá með um 30 tonn í sex róðrum á Ólafsfirði. Annars var hann í Sandgerði á reknetum á síld og var á síldveiðum frá því í ágúst og fram í október. Alls landaði báturinn þá 170 tonnum af síld sem að mestu var landað í Sandgerði en að auki á Siglufirði og Eskfirði. Mest landaði hann fjórtán tonnum í einni löndun.
Þetta þýðir að enn og aftur að dragnótabátum á Suðurnesjum fækkar. Enginn er í Grindavík og eftir eru bara Nesfiskbátarnir Siggi Bjarna GK, Benni Sæm GK og Sigurfari GK auk Aðalbjargar RE. Einn af þeim sem voru á Njáli RE er núna á Aðalbjörgu RE og allir róa þessir bátar frá Sandgerði.
Fyrst ég er kominn í dragnótabátana þá var febrúar feikilega góður mánuður og var Benni Sæm GK þriðji aflahæsti dragnótabáturinn á landinu með 209 tonn í nítján, og Siggi Bjarna GK kom þar rétt á eftir með 202 tonn í átján. Sigurfari GK með 159 tonn í fimmtán og Aðalbjörg RE 75 tonn í tíu löndunum.
Mokveiði var hjá línubátunum og aldrei þessu vant þá var Hrafn GK aflahæstur með 562 tonn í sex róðrum og mest 128 tonn í einni löndun. Þess má geta að aldrei áður hefur Hrafn GK veitt jafn mikið á einum mánuði og núna í febrúar. Og 128 tonna túrinn er mesti afli sem að báturinn hefur komið með að landi eftir að hann varð línubátur.
Aðeins í söguna á Hrafni GK. Hann er fyrrum loðnuskip en hann var smíðaður í Noregi árið 1974 og hét Gullberg VE frá Vestmannaeyjum í næstum tuttugu ár. Má geta þess að nýi Sighvatur GK, sem hefur verið minnst á hérna í þessum pistlum, er systubátur Hrafns GK því báðir voru smíðaðir í Noregi og báðir voru loðnubátar á árum áður. Annað sem er nokkuð merkilegt við Hrafn GK er að hann er einn af örfáum línubátum, eða bara bátum yfir höfuð, sem hafa siglt erlendis með aflann til sölu. Það gerðist árið 2008 þegar að Hrafn GK, sem reyndar þá hét Ágúst GK, sigldi tvisvar í mars með aflann og landaði alls um 275 tonnnum í tveimur túrum. Landað var í Grimsby í Bretlandi í bæði skiptin.
Heilt yfir þá var veiði bátanna í febrúar mjög góð en framundan er marsmánuður sem hefur alltaf verið einn af stærstu aflamánuðum ársins og hann byrjar vel. Þorsteinn ÞH kom með 11,2 tonn, Bergvík GK 10,7 tonn báðir í einni löndun á netin. Von GK kom með 13,5 tonn í land í einni löndun á línu.