Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Níu milljarða kr. kappakstursbraut í Reykjanesbæ?
Föstudagur 28. maí 2004 kl. 17:45

Níu milljarða kr. kappakstursbraut í Reykjanesbæ?

Erlend teiknistofa, sem kunn er fyrir hönnun kappakstursbrauta, vinnur þessar vikurnar að hönnun kappaksturs- og dekkjaprófunarbrautar í Reykjanesbæ. Fulltrúar fyrirtækisins hafa samkvæmt heimildum Víkurfrétta komið nokkrum sinnum til að skoða aðstæður og varið umtalsverðum fjármunum til verksins. Samkvæmt upplýsingum úr stjórnkerfi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir brautinni ofan Reykjanesbrautar á svæði frá Seltjörn að Patterson-flugvelli.
Kappaksturs- og dekkjaprófunarbrautin verður upphituð og verður hægt að stilla brautarhita mjög nákvæmlega eftir óskum dekkjaframleiðenda hverju sinni. Heimildamaður Víkurfrétta segir að brautin komi til með að spara framleiðendum hjólbarða bæði tíma og peninga í þróun dekkja. Í dag séu stórar flutningaflugvélar sendar heimshorna á milli með ærnum tilkostnaði til að elta uppi aðstæður með réttu hitastigi. Oftar en ekki fara menn fýluferðir, þar sem veðurfar breytist stöðugt og því hverfa réttu aðstæðurnar. Hér á landi komast menn í mikla orku á hagstæðu verði og mikill jarðhiti er á svæðinu. Þannig verður auðvelt að stjórna hitastigi brautarinnar. Í samtölum Víkurfrétta við menn sem þekkja til þessara mála er talið að brautin komi til með að kosta um 9 milljarða króna.
Ekki liggur fyrir hvenær ráðist verður í verkið en viðræður standa yfir við alla stærstu hjólbarðaframleiðendur heims um aðkomu að verkefninu. Það þarf svo ekki að fara mörgum orðum um það að á vegum hjólbarðaframleiðenda eru allar skærustu stjörnur Formula 1 kappakstursins og annarra akstursíþrótta, sem eiga því eftir að þeysa um brautina í Reykjanesbæ á næstu árum, ef af verkefninu verður.

Myndin: David Coulthard á West McLaren Mercedes ekur á Bridgestone hjólbörðum. Verður hann við dekkjaprófanir í Reykjanesbæ á næstu árum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024