Níu innbrot tilkynnt lögreglu í dag
Níu innbrot hafa verið tilkynnt til lögreglunnar í Reykjanesbæ í dag. Einkum var brotist inn í verslanir og fyrirtæki, og eina íbúð. Einnig var stolið bíl sem er fundinn. Þjófarnir hafa litlu stolið en mikið gramsað og skemmt. Sígarettum fyrir um 100.000 krónur var stolið úr verslun. Ekki er vitað hvort einn eða fleiri voru að verki en lögreglan í Reykjanesbæ segir að svo virðist sem þjófur hafi slasað sig því blóð hefur fundist á nokkrum staðanna. Lögregla rannsakar öll málin.