Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart
Föstudagur 9. maí 2014 kl. 09:30

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart

segja oddvitar framboðsflokka í Reykjanesbæ um könnun Morgunblaðsins.

Eins og komið hefur fram í fréttum er meirihluti Sjálf­stæðis­flokks­ins í bæj­ar­stjórn Reykja­nes­bæj­ar fall­inn sam­kvæmt könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir Morg­un­blaðið. Víkurfréttir fengu í gær viðbrögð Árna Sigfússonar bæjarstjóra við þeim niðurstöðum. Við heyrðum einnig í oddvitum annarra framboða og fengum þeirra viðbrögð.

„Þetta kemur ekki á óvart. Það eru sex flokkar í framboði og fylgi dreifist mun víðar en áður,“ segir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar. Það hljóti að bitna á Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni að fyrrverandi félagar þessara tveggja flokka séu farnir í sérframboð. „Það mátti búast við þessu. En ég held að þetta sé ekki einhver endanleg niðurstaða. Ég held að það verði mikið flökt á þessu og það sé mjög óljóst um framhaldið. Byrjunin á einhverju skemmtilegu næstu þrjár vikurnar.“



Trausti Björgvinsson, oddviti Pírata, segir niðurstöðurnar einnig ekki koma á óvart. „Við erum mjög ánægð með þessa könnun og þetta fylgi sem hún sýnir. Við bjuggumst við þessu. Í könnun sem gerð var í nóvember fengum við 11.3% fylgi, áður en flokkurinn var stofnaður. Í raun bjuggumst við við að halda því hlutfalli.“ Trausti segir að Píratar hafi fundið fyrir jákvæðni í sinn garð í samfélaginu og sé ekki í neinum vafa um það að fólk sé að kalla á breytingar. „Ég held að það sé aðallega vegna þess að hjólin hafa ekki verið að snúast hérna, því miður fyrir ríkjandi meirihluta. Sjálfstæðismenn hafa verið að reyna að vinna að góðum málum í bænum en það hefur ekki farið af stað. Við höfum beðið ár eftir ár.“ Til að mynda hafi engir peningar verið að koma úr Helguvíkinni eins og talað hafi verið um. „Við erum nýtt fólk í framboði og teljum okkur geta orðið að liði. Við erum til í allar viðræður og allar dyr eru opnar hjá okkur. Við reynum að sjá hvar við komum okkar málefnum sem best að. Velferðarmálin skipta þar mestu máli,“ segir Trausti.


Kristinn Jakobsson, oddviti framsóknarflokksins, segir óeiningu á meðal Sjálfstæðismanna vera helstu ástæðu þess að þeir fá ekki meira fylgi í könnuninni. „Gunnar Þórarinsson klýfur sig frá Sjálfstæðisflokknum og kannski er skýringin líka útreiðin í því prófkjöri.“ Sjálfstæðismenn hafi verið í tólf ár í hreinum meirihluta og í 20 ár síðan Reykjanesbær var stofnaður; með Framsóknarflokknum fyrstu átta árin. „Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk hreinan meirihluta hafa fjármálin verið í algjörri óreiðu. Atvinnumálin virðast skipta bæjarbúa mestu máli og þar spila fjármálin inn líka. Og síðan eru það húsnæðismálin.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn segir að samkvæmt mánaðalegu yfirliti sem Íbúðalánasjóður gefur út þá eigi sjóðurinn 814 íbúðir í Reykjanesbæ. „Þar af eru 130 - 140 sem eru í útleigu. Aðrar eru tómar, í ýmsu ásigkomulagi og á ýmsu byggingarstigi, sem þarf að koma í stand og leigu. Einnig þarf að lækka leiguna þannig að hún sé viðráðanleg fyrir íbúana sem eru með þær tekjur sem þeir hafa hér á svæðinu,“ segir Kristinn og bætir við að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra hafi skipað hóp til að leysa þennan húsnæðisvanda og muni halda fund næstkomandi laugardag á flokkskrifstofu Framsóknarflokksins. „Allir eru velkomnir þangað,“ segir Kristinn að endingu.