Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vísað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála

Isavia hefur ákveðið að kæra bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 17. júlí síðastliðnum til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Bráðbirgðaákvörðunin felst í því að stofnunin gerir Isavia að stöðva tímabundið gjaldtöku á ytri hópbifreiðastæðum á Keflavíkurflugvelli. Isavia er ósammála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og telur það óeðlilegt að Samkeppniseftirlitið stöðvi gjaldtöku fyrir einn af þjónustuþáttum á Keflavíkurflugvelli. Með því að ákveðinn hluti þeirra aðila sem starfa við hópferðaakstur til og frá flugvellinum greiði fyrir aðstöðu á vellinum og annar hluti greiði ekki, telur félagið að samkeppnisstaða aðila á markaðinum sé skekkt.

Keflavíkurflugvöllur er fjármagnaður með gjöldum fyrir aðstöðu og þjónustu
Rekstur og uppbygging Keflavíkurflugvallar er fjármögnuð með notendagjöldum og gjöldum fyrir aðstöðu á flugvellinum. Þeirri gjaldtöku hefur Isavia hagað í samræmi við bæði íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og leiðbeiningar alþjóðastofnana. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við hvernig rekstri og uppbyggingu samkeppnisflugvalla Keflavíkurflugvallar í Evrópu er háttað.

Innheimta gjalda hefur verið stöðvuð
Í samræmi við bráðabirgðaákvörðunina hefur innheimta gjalda verið stöðvuð meðan bráðabirgðaákvörðunin er í gildi en verði ákvörðuninni hnekkt í kærumeðferð eða fyrir dómstólum mun gjaldið verða innheimt fyrir tímabilið sem stöðvunin nær til. Ef endanleg niðurstaða í málinu verður sú að gjaldtaka á fjarstæðum hafi verið óheimil, mun Isavia endurgreiða þau gjöld sem innheimt hafa verið frá því innheimta hófst.