Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Niðurskurður sem á sér ekki hliðstæðu - segir minnihluti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 6. janúar 2010 kl. 11:05

Niðurskurður sem á sér ekki hliðstæðu - segir minnihluti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar


„Það er einkum tvennt sem vekur athygli þegar fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2010 er skoðuð. Annars vegar er sú mikla bjartsýni sem ríkir þegar tekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar og hins vegar sá mikli niðurskurður sem lagt er til að ráðist verði í. Þrátt fyrir að það líti þannig út að um óverulegan niðurskurð sé að ræða, þá hafa slíkar niðurskurðartillögur aldrei sést við rekstur þessa sveitarfélags og styðja það sem áður hefur verið haldið fram að farið hafi verið offari og að nú sé komið að skuldadögum. Það hlýtur að vekja athygli bæjarbúa að grípa þurfi til slíkra niðurskurðaraðgerða eftir að sjálfstæðismenn tilkynntu um viðsnúning í rekstri Reykjanesbæjar í frétt sem þeir birtu á heimasíðu sveitarfélagsins þann 27.nóvember sl.,“ sagði Guðbrandur Einarsson þegar hann las upp bókun minnihlutans á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær í umræðum um fjárhagsáætlun bæjarsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tekjur skv. áætlun
„Í fjárhagsáætlun 2010 er reiknað með 680 milljóna króna aukningu tekna af útsvari vegna nýrra starfa sem gert er ráð fyrir að verði til á árinu og að öll sú fækkun íbúa sem átti sér stað á síðasta ári gangi til baka og vel það. Hagdeild Alþýðusambands Íslands gerir ráð fyrir að landsframleiðsla muni dragast saman um 3% á árinu 2010 og að endurbætur við álverið í Straumsvík hefjist í byrjun ársins og framkvæmdir í Helguvík fari á fullt skrið síðari hluta árs 2010 eins og það er orðað. Ef ekki verður af þessum framkvæmdum gerir hagdeildin hins vegar ráð fyrir að hagvöxtur verði tæpum 7% minni en ella yrði, á tímabilinu 2009 - 2012. Það vekur athygli að það skuli koma fram í texta með fjárhagsáætlun að sjálfstæðismenn telja að ákvarðanir eða ákvarðanaleysi ríkisstjórnarinnar ráði því að tafir hafi orðið á þeim verkum sem reiknað er með að ráðist verði í hér á Suðurnesjum. Vert er í þessu sambandi að minna á bókun sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar sendi frá sér 2. desember 2008 þar sem áréttað var að ekki væri óskað eftir undanþágum frá nokkrum lagaskyldum og reglum. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur væntanlega ekki skipt um skoðun hvað það varðar. Þá er rétt að minna á að ekki hefur tekist að ljúka fjármögnun á neinu þessara verkefna sem rætt er um, en vonandi tekst það þrátt fyrir erfitt árferði.
Það hlýtur því vegar að teljast mjög vafasöm áætlanagerð sem byggir á stórfelldum tekjum af slíkum verkefnum.


Gjöld skv. áætlun
Skv. fjárhagsætlun er reiknað með að gjöld bæjarsjóðs lækki úr rúmum 8,3 milljörðum skv. endurskoðaðri áætlun í rúma 7,7 milljarða sem er 5% lækkun milli ára eins og segir í texta. Þessi niðurskurður er hins vegar miklu meiri, þar sem hvorki hefur verið tekið tillit til verðlagsbreytinga, launahækkana eða fjölgunar íbúa. Þessi atriði leiða án efa til aukinna útgjalda fyrir sveitarfélagið, þrátt fyrir hugsanlegar hagræðingaraðgerðir sem reynt verður að grípa til. Sá niðurskurður sem við stöndum frammi fyrir kemur best fram í þeim römmum sem forráðamönnum hvers starfssviðs hefur verið úthlutað. Þar kemur m.a fram að fræðslusvið þarf að draga saman um 10.7% að teknu tilliti til framreikninga, fjölskyldu- og félagssvið um 14,5%, íþrótta- og tómstundasvið um 14,4%, menningarsvið um 14,7% og umhverfis- og skipulagssvið um 22,8%.
Þetta er sá niðurskurður sem við stöndum frammi fyrir. Fræðslusviðið sem heldur utan um leik- og grunnskólastarf þarf að skera niður um 355 milljónir á árinu og það er rúmlega tvöfaldur sá niðurskurður sem Reykvíkingum er ætlað að taka á sig. Sem dæmi um niðurskurð sem kemur beint við nemendur grunnskólanna má nefna að forfallakennsla verður skorin niður um þriðjung skv. áætlun.
Það er skelfilegt til þess að hugsa að sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ skuli þurfa, eftir allan góðæristímann, að byggja áætlanagerð sína á væntingum um tekjur sem alls ekki eru í hendi og á niðurskurði sem á sér ekki hliðstæðu, nema þá kannski í sveitarfélagi eins og Álftanesi, þar sem farin var svipuð leið í rekstri og hér í Reykjanesbæ. Við skulum vona að niðurstaða þessarar áætlunar gangi eftir en verum þess jafnframt viðbúin að það muni skeika um hundruði milljóna eða jafnvel milljarða miðað við reynslu af áætlanagerð sjálfstæðismanna á s.l. árum“.

Undir bókunina skrifuðu: Guðbrandur Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Sveindís Valdimarsdóttir, Ólafur Thordersen.