Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Nicholas Cage svaf í einkaþotunni við Leifsstöð
Miðvikudagur 14. maí 2003 kl. 20:31

Nicholas Cage svaf í einkaþotunni við Leifsstöð

Nicholas Cage, Hollywood-leikarinn góðkunni, svaf um borð í einkaþotu á flughlaðinu við Leifsstöð nú síðdegis á meðan samferðafólk hans sprangaði um flugstöðina og skoðaði í búðir á meðan eldsneyti var tekið. Þetta hafa Víkurfréttir fengið staðfest, en tilvist Cage um borð í þotunni var fljótlega dregin í efa, eftir að Víkurfréttir birtu frétt um þessa óvæntu heimsókn nú síðdegis. Starfsmenn á flughlaði fóru um borð í einkaþotuna. Sagan segir að samband Nicholas Cage og Lisu Marie Presley sé á enda. Þau komu hins vegar saman með einkaþotunni frá París í Frakklandi og samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er næsti áfangastaður Bangor á Nýja Englandi. Þau eru sem sagt á leiðinni vestur um haf en ekki á leiðinni til Frakklands, eins og sagt var frá í dag.Starfsfólk í flugstöðinni sem Víkurfréttir hafa rætt við segja það hafa verið sérstakt að sjá Lisu Marie Presley spranga um ganga með þrjú ungmenni í för. Sumir starfsmenn ljómuðu þegar þeir uppgötvuðu hver var þarna á ferð. Heimsþekktar persónur vekja jú alltaf athygli. Ekki fer sögum af því hvort myndavélar hafi verið á lofti í flugstöðinni í návígi við gestina frægu.

Tískulöggur heimsins hafa örugglega áhuga á að skoða það hvernig þessi dóttir rokkkóngsins var til fara og því látum við fylgja með mynd sem Hilmar Bragi tók nú síðdegis þegar Lisa Marie stormaði um borð í einkaþotuna þar sem Nicholas Cage svaf værum blundi, samkvæmt öruggum heimildum Víkurfrétta. Gott ef buxurnar á frúnni minna ekki á karl föður hennar - eða hvað finnst ykkur?
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024