Neydd til samfara við ákærðu meðan lögreglan leitaði hennar
Réttarhöldin í mansalsmálinu svokallaða, sem embætti lögreglunnar á Suðurnesjum hefur haft til rannsóknar, tóku óvænta stefnu þegar fórnarlambið í málinu sagði frá því að hún hafi þurft að hafa samfarir við ákærðu eftir að hún kom til Íslands. Fórnarlambið hafði ekki sagt frá þessu við rannsókn málsins. Stöð 2 greindi frá þessu í fréttum í kvöld.
Um leið og 19 ára litháíska stúlkan kom til Íslands í október vaknaði grunur um að ekki væri allt með felldu og að hún hefði verið send hingað nauðug til þess að stunda vændi. Hún sagðist ekki eiga í nein hús að venda og engan þekkja hér á landi. Hún gat litlar skýringar gefið á ferð sinni hingað til lands en lögreglan varð vör við þrjá menn sem biðu eftir konunni á Leifsstöð og reyndu að ná sambandi við hana.
Eftir að hafa verið í umsjá lögreglu í tvo daga hvarf stúlkan. Lýst var eftir henni í fréttum og hún fannst ekki fyrr en fáeinum dögum síðar og í kjölfarið var gefin út ákæra gegn sex litháum og einum Íslendingi.
Réttarhöldin eru lokuð almenningi og fjölmiðlum en samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 kom framburður fórnarlambsins bæði verjendum og saksóknara í opna skjöldu. Áður en hún bar vitni þurftu hinir ákærðu, sex Litháar og einn Íslendingur að yfirgefa réttarsalinn.
Að því loknu sagði stúlkan frá því að hún hefði haft samræði við tvo af sakborningum á sama tíma og lögregluyfirvöld gerðu að henni dauðleit en hún hafði skömmu áður horfið úr umsjá félagsmálayfirvalda.
Stúlkan hefur ekki áður sagt frá þessu og til marks um það fór Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari fram á það í kjölfarið að Litháarnir yrðu aftur kallaðir til skýrslutöku svo hægt væri að spyrja þá nánar út þessar nýju upplýsingar.
Heimild: visir.is