Netklúbburinn hefur slegið í gegn
Vilborg Stefánsdóttir, hjá söluskrifstofu Flugleiða, sagði að nýji sumarleyfisbæklingurinn hefði fengið mjög góðar viðtökur. „Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur og mér sýnist sem Íslendingar séu farnir að plana sumarfríið sitt mun fyrr en þeir gerðu“, segir Vilborg. Á meðal nýrra áfangastaða sem Flugleiðir bjóða upp á í sumar eru Madrid, Dusseldorf og Berlín. Flugleiðir hafa gert samning við spænska flugfélagið Iberia og bjóða, í samstarfi við þá, upp á mjög góð fargjöld til Spánar og innan Spánar, þar má nefna Malaga, Bilbao og Alicante sem hafa verið vinsælir viðkomustaðir Íslendinga undanfarin ár.„Barcelona er alltaf vinsælasta borgin á sumrin. Einnig eru Kaupmannahöfn og Lundúnir mjög vinsælar borgir. Nú fljúga Flugleiðir til Parísar allan ársins hring og Íslendingar hafa kunnað vel að meta það“, segir Vilborg.Flugleiðir bjóða nú sérstaklega lág fargjöld til tíu borga í Evrópu, þ.e. til Kaupmannahafnar, Lundúna, Parísar, Dusseldorf, Zurich, Frankfurt, Osló, Stokkhólms, Mílanó og Berlínar. Miðinn kostar aðeins 14.900 krónur auk flugvallarskatta. Þessi ódýru fargjöld verða til sölu út mars en sama verð verður á ferðum til Kaupmannahafnar og Lundúna út sumarið. „Þessi fargjöld eru sniðug að því leytinu að þau eru ódýr og svo geta þeir sem vilja, flogið með öðrum flugfélögum áfram út í heim. Kaupmannahöfn er t.d alveg tilvalin því þar er lent snemma morguns og þá er hægt að taka næsta leiguflug þaðan til sólarlanda“, segir Vilborg. Flugleiðir eru með Netklúbb og eru nú um 50.000 meðlimir skráðirí þann klúbb. „Við sendum út frábær tilboð á hverjum mánudegi. Þetta eru yfirleitt helgarbrottfarir og yfirleitt stutt í brottför sem hentar mörgum mjög vel. Það er hægt að skrá sig í Netklúbbinn á www.icelandair.is“, segir Vilborg að lokum og pírir augun í áttina að litlum sólargeisla sem smígur inn á milli gluggatjaldanna.