Netabátur í sjávarháska við Grindavík
Netabáturinn Reynir GK355 varð vélarvana rétt vestan við Grindavík í dag og tók að reka að landi.
Báturinn var aðeins um 200 metra frá landi þegar skipverjum á dragnótabátnum Þresti tókst að koma bátnum í tog.
Það var laust eftir klukkan þrjú sem tilkynning barst um að Reyni GK ræki að landi út af Staðarhverfi, rétt vestan við Grindavík.
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason var sent frá Grindavík auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var send frá Reykjavík. Þegar Reynir GK átti aðeins um 200m að landi náðu skipsverjar af dragnótabátnum Þresti RE 21 að koma Reyni GK í tog og var hann síðan dreginn til Grindavíkurhafnar.
Fimm menn voru í áhöfn Reynis GK og amaði ekkert að þeim.
Reynir GK355 er 70 tonna eikarbátur smíðaður í Danmörku árið 1957. Talið er að um bilun í skrúfu hafi leitt til þess að skipið tók að reka að landi.
Mynd: Björgunarskipið Oddur V. Gíslason var sent á vettvang ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Mynd úr safni.