Nesbyggð kaupir og byggir Grænuborgarsvæðið
Nesbyggð ehf hefur keypt allt hlutafé í Þóruskerjum ehf en félagið á svokallað Grænuborgarsvæði við Voga þar sem byggðar verða 400 til 500 íbúðir á næstu árum.
Þórusker hefur haft með höndum skipulag og undirbúning Grænuborgarsvæðisins en í framtíðinni mun þar verða blönduð byggð sérbýlis og fjölbýlis. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 246 íbúðum, þar af 112 í fjölbýli, fimmtíu og einni í í einbýli og afgangurinn verður par- og raðhús. Þegar seinni áfangi verður skipulagður verðir gert ráð fyrir skóla, leikskóla og fleiri íbúðum.
„Fyrri áfangi skipulagsins hefur verið samþykktur og við reiknum með að hefjast þarna handa innan mánaðar þegar endanleg afgreiðsla Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Við ætluðum að selja þarna frá okkur lóðir en þar sem við í Nesbyggð erum stórhuga reiknum við alveg eins með byggja þetta að miklu leyti sjálfir. Við ætlum að fara í gatnagerðina í sumar og sjá þá til hvernig vindar blása á markaðnum,“ sagði Páll Harðarson, eigandi Nesbyggðar í samtali við VF í morgun.
Grænuborgarsvæðið liggur rétt norðan við núverandi íþróttasvæði í Vogum og þykir staðsetningin ákjósanleg fyrir fjölskyldufólk. Fyrsti áfangi getur fullbyggður rúmað allt að 750 íbúa.
„Þetta er flott svæði. Okkar metnaður mun liggja í því vanda þarna til verks, allt verði í góðu standi og svæðið verði þekkt fyrir það,“ sagði Páll Harðarson.