Nemendurnir í Keflavík - kennarinn á Akureyri
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum opnaði með pompi og prakt sl. fimmtudag í gamla barnaskólanum við Skólaveg í Keflavík. Formlegt nám hófst síðan á mánudagsmorgun en þar voru mættar 16 konur af öllum Suðurnesjum sem ætla sér að stunda hjúkrunarfræðinám næstu fjögur árin á vegum Háskólans á Akureyri. Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Síðar í vikunni hefst fjarkennsla í rekstrarfræði og hafa 24 einstaklingar skráð sig í það nám.Úrval námskeiða fyrir námsfúsaMiðstöð símenntunar tók til starfa 1. febrúar árið 1998. Kjartan Már Kjartansson var fyrsti forstöðumaður hennar en hætti í desember það ár. Núverandi forstöðumaður hennar en Skúli Thoroddsen sem hefur gegnt stöðunni síðan í janúar 1999. Haustið 1998 hófst kennsla í ferðamálafræðum og var um tilraunaverkefni aþ ræða á vegum Háskóla Íslands og MSS. Síðastliðinn vetur stunduðu þrír einstaklingar fjarnám hjá MSS í íslensku og bókmenntum á vegum H.Í. og munu þeir nemendur halda áfram fjarnámi. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands mun bjóða upp á spennandi námskeið fyrir námsfúsa Suðurnesjamenn í vetur, sem verða auglýst síðar. Einnig mun fólk eiga kost á að sækja einstök námskeið hjá H.Í.Góð aðstaða og fagleg vinnubrögðFjarnám á Íslandi er engin nýlunda, en það hófst fyrst á Ísafirði árið 1997. Að sögn Skúla Thoroddsen kynntu forsvarsmenn MSS hvernig málum var háttað á Ísafirði áður en farið var að undirbúa fjarkennslu á Suðurnesjum. „Okkur fannst tilvalið að bjóða upp á hjúkrunarfræðinám hér suðurfrá, því hér er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum. Þetta er fjögurra ára nám en fyrirlestrum er sjónvarpað frá Akureyri til Reykjanesbæjar og Neskaupsstaðar, þar sem 9 manns stunda nám í hjúkrunarfræðum. Nemendur mæta hingað fjóra daga vikunnar, samkvæmt stundatöflu og eru í fullu námi. Hér hafa nemendur góða aðstöðu til að vinna hópverkefni og aðgang að skólanetinu, en við leggjum okkur fram við að skapa gott námsumhverfi og gera hlutina faglega í góðri samvinnu við H.A.“, segir Skúli Thoroddsen.Rekstrarfræðinám fyrir vinnandi fólkNám í rekstrarfræði á vegum H.A. hefst nú í vikunni og nú þegar hafa 24 einstaklingar innritað sig. „Rekstarfræðin er sniðin að þörfum vinnandi fólks. Þetta er 3 ára nám en við miðum við að fólk ljúki því á 4-5 árum. Kennslan fer fram eftir kl.17 á degi hverjum og er um 6 kennslustundir á viku. Nemendur þurfa að leysa verkefni á netinu hér eða heima hjá sér“, segir Skúli.Þegar blaðamann VF bar að garði voru tilvonandi hjúkrunarfræðinemar nýkomnir í skólann og það leyndi sér ekki að mikil gleði og eftirvænting lá í loftinu. Sumar hópuðu sig saman frammi á gangi, sötruðu morgunkaffið sitt og gæddu sér á nýbökuðu vínarbrauði á meðan aðrar kúrðu sig yfir skólabækurnar inní kennslustofunni og reyndu að venjast þeirri tilhugsun að vera sestar aftur á skólabekk. Eftir skamma stund kallaði Skúli nemendur inn og kveikti á fjarfundabúnaðinum. Kennarinn fyrir norðan sýndi stúlkunum í Reykjanesbæ enga miskunn og beindi ótt og títt til þeirra spurningum, eins og þær væru staddar í kennslustofunni hjá honum. Sumum þótti svolítið skrítið í fyrstu að geta talað við sjónvarpið, vitandi að kennarinn sæi þær. „Undarleg tilhugsun en venst vonandi með tímanum“, varð einni námsmey að orði. Helga Steindórsdóttir: „Námið leggst mjög vel í mig. Mér finnst þetta vera mjög spennandi en ég geri mér grein fyrir að þetta verður frekar strembið.“Hvers vegna ákvaðstu að fara í hjúkrunarfræðina? „Ég tel mig hafa góðan tíma og mig hefur lengi langað til að fara út í þetta. Þetta er frábært framtak að gera fólki kleift að stunda slíkt nám í heimabyggð“, segir Helga.Erla Svava Sigurðardóttir: „Það er gaman að vera kominn aftur í skólann en það eru 2 ár síðan ég lauk stúdentsprófi. Ég var í guðfræði í H.Í. í einn vetur og starfaði síðan í Fjörheimum.“Hefur þig lengi langað til að verða hjúkrunarfræðingur? „Ég ákvað að skrá mig þegar ég sá fjarnám auglýst á sínum tíma. Ég hefði ekki farið hefði ég þurft að sækja tíma til Reykjavíkur.“Margrét Blöndal: „Ég hef starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla undanfarin tvö ár en fjarnámið er tækifæri sem ég vildi ekki missa af. Mér finnst þetta vera frábært framtak hjá Miðstöð símenntunar.“Sveindís Skúladóttir: „Ég lauk sjúkraliðanámi árið 1991 og hef starfað á heilbrigðisstofnunum síðan. Inntökuskilyrði í hjúkrunarfræðinámið er að hafa stúdentspróf eða a.m.k. 7 ára starfsreynslu á þessu sviði. Mér þótti þetta því freistandi og ákvað að slá til.“Fv. Bryndís Hauksdóttir, Anna Pála Magnúsdóttir, Ingibjörg Þórðardóttir og Guðbjörg Sigurðardóttir: „Fyrsti tíminn var skemmtilegur, kennarinn var hress og kátur og það er mjög góður andi í bekknum. Þetta verður örugglega erfitt en okkur hlakkar til að takast á við námið.“