Nemendur velja skólamáltíðir í rafrænni kosningu
Grunnskólabörn í 1. – 9. bekk í Reykjanesbæ ganga nú í fyrsta skipti að kjörborðinu í almennum kosningum og greiða atkvæði um málefni sem varða þau beint. Börnin kjósa að þessu sinni um hvaða máltíðir þau vilja fá á matseðil næsta skólaárs en jafnframt kjósa þau besta réttinn.
Niðurstaða kosninganna mun verða grunnur að samsetningu matseðils næsta skólaárs en alls taka um 1850 börn þátt í atkvæðagreiðslunni.
Um tilraunaverkefni er að ræða á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar í samvinnu við Skólamat ehf., sem sér um máltíðir grunnskólabarna og hugbúnaðarfyrirtækið Integral Turing í átaki um eflingu lýðræðisvitundar meðal barna.
Börnin sem taka þátt fengu sérstakan veflykil afhentan í vikunni en heimaverkefni þeirra um helgina verður að kjósa. Almenn ánægja er meðal foreldra og barnanna með þetta framtak en meðal þess sem Reykjanesbær lagði áherslu á var að blind börn gætu tekið þátt.
Niðurstaða kosninganna mun liggja fyrir eftir helgi og verður fróðlegt að sjá hvernig börnin í bænum fara með atkvæðisrétt sinn um mál er varða þeirra eigin hagsmuni, segir í frétt frá Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ: „Við teljum einnig að það muni án efa efla lýðræðisvitund meðal grunnskólabarna í bænum, undirbúa þau við að taka eigin ákvarðanir og veki upp ábyrgðartilfinningu meðal þeirra.
Rafrænar kosningar eru framtíðin. Það er skynsamlegt að byrja á ungu kynslóðinni þar sem þessi tækni leikur í höndum þeirra. Ef hún lærir þessi vinnubrögð, verða rafrænar kosningar smám saman að fjöldaþátttöku, sem við hljótum öll að stefna á“.
Janus Arn Guðmundsson, sérfræðingur í rafrænum kosningum hjá Integral Turing, segir framtak Reykjanesbæjar nýbreytni í sýn hins opinbera á kosningar:
„Stjórnvöld í bænum sýna þarna frumkvæði að því að efla lýðræðisvitund barna og kenna þeim hvernig raunverulegar kosningar ganga fyrir sig auk þess sem þau horfa til framtíðar með því að kynna rafrænt fyrirkomulag kosninga til sögunnar.“