Nemendur úr Sandgerðisskóla unnu aðal-verðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Hilda Rún og Thelma Sif nemendur í 7. bekk í Sandgerðisskóla unnu aðalverðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með hugmynd sinni um hjálparljós. Af mörg hundruð hugmyndum voru 25 valdar til útfærslu í vinnustofu sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík.
Nýsköpunarkennsla hefur verið stór þáttur af náttúrufræðikennslu 7. bekkjar í vetur í umsjón Ragnheiðar Ölmu Snæbjörnsdóttur.
Hjálparljósið virkar þannig að þegar nemanda vantar aðstoð í kennslustund kveikir hann á ljósinu í stað þess að rétta upp hendi. Þannig veit kennarinn hverja vantar aðstoð og nemandinn verður ekki þreyttur í hendinni. Eftir fjórar mínútur breytist ljósið úr grænu í gult og svo í rautt eftir aðrar fjórar mínútur. Að lokum fer rauða ljósið svo að blikka.
Í síðustu viku var hátíðlegt tilefni þar sem Ásmundur Einar Daðason, skóla-og barnamálaráðherra, veitti þeim vegleg verðlaun og verðlaunagrip á lokahófi keppninnar.
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5.–7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1992 og hefur verið haldin, óslitið síðan og á keppnin því 30 ára afmæli í ár. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða annarri kennslu á skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni út frá sínu áhugasviði, allt frá hugmynd til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.
Gaman er að segja frá því að annað árið í röð hljóta nemendur Sandgerðisskóla aðalverðlaun keppninnar.