Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 27. september 2002 kl. 08:45

Nemendur tróðu upp á tungumáladegi

Evrópski tungumáladagurinn var haldinn í Njarðvíkurskóla í gær þar sem nemendur skólans tróðu upp með fjölbreytt skemmtiatriði sem öll tengdust tungumálum á einhvern hátt. Jón Böðvarsson, sonur Böðvars Jónssonar bæjarfulltrúa spilaði Evrópulagið á klarinett, nemendur fyrsta bekkjar sungu lagið Góðan dag á nokkrum tungumálum, nemendur af erlendu bergi brotnir töluðu saman á portúgölsku, lítill gutti talaði við nemendur á dönsku og nemendur 9. bekkjar sungu nokkur erlend lög. Flutt voru ljóð á pólsku og í lokin tóku nemendur lagið í fjöldasöng.Evrópski tungumáladagurinn 26. september síðastliðinn var liður í samevrópskri dagskrá á Evrópsku tungumálaári 2001. Eitt af meginmarkmiðum tungumálaársins er að vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu við að efla gagnkvæman skilning, umburðarlyndi og virðingu fyrir sérkennum og ólíkri menningu þjóða. Á Evrópska tungumáladeginum lögðu bæði Evrópuráðið og Evrópusambandið, en þessar stofnanir skipuleggja Evrópskt tungumálaár í samvinnu við 45 þátttökulönd, áherslu á aukna þýðingu þessa boðskapar í ljósi þeirra atburða sem nýlega gerðust á alþjóðavettvangi.

Dagskrá tungumáladagsins var skipulögð í hverju landi fyrir sig. Í löndum Evrópska efnahagssvæðisins var um einn sameiginlegan viðburð að ræða sem fólst í því að nokkur þúsund blöðrum var sleppt í höfuðborgum landanna. Hér á landi fór þessi athöfn fram á skólalóð Austurbæjarskólans í Reykjavík með þátttöku nemenda og starfsfólks skólans sem einnig sáu um stutta skemmtidagskrá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024