Neitar orðrómi um nýjan meirihluta í Grindavík
Sigmar Eðvarðsson, bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Grindavík, neitar orðrómi um að nýr meirihluti sé í pípunum í bæjarstjórn Grindavíkur. Í dag er meirihlutasamstarf Samfylkingar og Framsóknarflokks með stuðningi Vinstri grænna.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir hætti sem bæjarstjóri Grindavíkur um sl. mánaðamót og sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar en hún hefur tekið við prestsembætti austur á fjörðum. Heimildamenn Víkurfrétta segja hana límið sem hafi haldið saman meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Framsóknarflokks með stuðningi Vinstri grænna. Það varð mjög brothætt á liðnu sumri en annar bæjarfulltrúi Samfylkingnarinnar, Garðar Páll Vignisson, gekk þá úr Samfylkingunni og yfir í Vinstri græna. Áður hafði verið tekist á í meirihlutanum í Grindavík um ráðningu skólastjóra í nýtjan grunnskóla í Grindavík. Þar settu framsóknarmenn í meirihlutanum sig á móti því að Garðar Páll yrði ráðinn skólastjóri.
Heimildir Víkurfrétta herma að nú hafi Garðar Páll meirihlutamálin í Grindavík í hendi sér og í burðarliðnum sé meirihlutasamstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins þar sem sjálfstæðismenn komi með bæjarstjórann Ólaf Örn Ólafsson aftur til starfa í Grindavík. Ólafur Örn er ennþá á launum sem bæjarstjóri í Grindavík, enda gerði starfslokasamningur hans ráð fyrir því að hann yrði á launum út kjörtímabilið og sex mánuðum betur. Enginn bæjarstóri er nú starfandi í Grindavík eftir að Jóna Kristín hætti. Í samtali við Víkurfréttir undraðist Sigmar Eðvarðsson það mjög.
Víkurfréttir hafa ekki náð í Garðar Pál Vignisson við vinnslu fréttarinnar.
Loftmynd: Oddgeir Karlsson