Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 15:12

NEI VIÐ NEKT!

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafnaði áfengisleyfi til Club Casino í fyrrakvöld: Heitt í kolunum á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ þegar umsókn Club Casino/Strikið um vínveitingaleyfi var hafnað: Þrjár bókanir og eitt lögfræðiálit lagt fram á bæjarstjórnarfundinum: Sitt sýnist hverjum felld 6:5 Umsókns Jóns M. Harðarsonar um áfengisveitingaleyfi fyrir stað sinn Club Casino í Grófinni var hafnað á fundi bæjarstjórnar í fyrradag. Tvær tillögur voru lagðar fram á fundinum, önnur þess efnis að staðnum yrði veitt fullt leyfi en hin með takmörkuðu leyfi, þ.e. með tímatakmörkun á veitingu áfengis. Báðar tillögurnar voru felldar, sú fyrri með 6 atkvæðum gegn 5 en hin féll á jöfnu. Ellert Eiríksson (D), bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sté fyrstur í pontu og lagði fram tillögu þess efnis að Jóni M. Harðarsyni yrði veitt leyfi með tímatakmörkunum á þá leið að það gilti frá klukkan 12 á hádegi til klukkan 20 að kveldi dags. Ellert skýrði tillögu sína þannig að bæjarfulltrúar hefðu ekki vald til að ákvarða hvaða tegund skemmtana færi fram á skemmtistöðum en hefðu hins vegar vald til að veita takmarkað vínveitingaleyfi. Bæjarstjóri tók það sérstaklega fram að hann væri persónulega ekki hlynntur að slíkur staður væri í bæjarfélaginu og sagði að þeim fylgdi oft vændi og fíkniefni. Hann sagði jafnframt að ekki væri hægt að fullyrða um að vændi og fíkniefni muni fylgja nektardansstað. Jóhann Geirdal (J) tók næstur til máls og sagðist vera ósammála Ellerti að því leyti að hann teldi bæjarstjórnarfulltrúa ekki vera tilneydda til að veita áfengisleyfi. Menn ættu frekar að fylgja eigin samvisku og vísaði þar í 7.gr. í reglugerð Dómsmálaráðuneytisins frá árinu 1999 þar sem segir að bæjarstjórn hafi vald til að gefa leyfi, ákveða gildistíma þess og önnur skilyrði. Jóhann lét þau orð falla um tillögu Ellerts að hún væri einungis útúrsnúningur og þar með reynt að leysa eina vitleysuna með annarri. Hann taldi sjálfsagt að bæjarstjórn fjallaði um málið og gætti þannig hagsmuna bæjarbúa sem henni er skylt að vera í málsvari fyrir. Þorsteinn Árnason (B) taldi sig ekki geta verið á móti því að staðnum yrði veitt áfengisveitingaleyfi því hann hefði aldrei komið inná slíkan stað á Íslandi og beindi þeirri spurningu til fundarmanna hvort þeir vildu frekar hafa „súluna” í Stapanum en Grófinni. Ríkharður Ibsen (D) sagði að það væri ekkert í lögum sem mælti gegn slíkum stað og það væri brot á borgararlegum réttindum Jóns M. Harðarsonar veitingamanns að fá ekki leyfi fyrir slíkum stað. Í þessum máli ætti að varpa forræðishyggju fyrir róða og láta markaðslögmálin ráða ferðinni. Ríkharður lagði fram breytingartillögu við tillögu Ellerts, þ.e. að áfengi yrði veitt frá klukkan 12 um hádegi til klukkan 1 að nóttu á virkum dögum og frá klukkan 12 til klukkan 3 að nóttu á föstudögum og laugardögum. Böðvar Jónsson (D) studdi breytingartillögu Ríkharðs og benti jafnframt á fordæmismál þar sem veitingamenn hefðu farið í mál við bæjaryfirvöld eftir að hafa verið synjað um áfengisveitingaleyfi, og bæjaryfirvöldum verið gert að taka málið upp aftur. „Þetta snýst um lög og reglur, ekki persónulegt mat”, sagði Böðvar. Kjartan Már Kjartansson (B) lagði fram bókun þess efnis að Jóni yrði veitt vínveitningaleyfi. Tillagan var lögð til atkvæðagreiðslu og var felld með 6 atkvæðum gegn 5. Því næst voru greidd atkvæði um tillögu Ellerts Eiríkssonar og hún var einnig felld á jöfnu, þ.e. fjórir á móti, fjórir með og þrír sátu hjá. Svona féllu atkvæði í bæjarstjórn Afgreiðsla tillagnanna tveggja var þverpólitísk því tveir bæjarfulltrúar meirihlutans ásamt fjórum fulltrúum minnihlutans voru á móti tillögunni sem gekk lengra þ.e. fullt leyfi tilhanda staðnum. Þegar fyrri tillagan var borin undir atkvæði voru sex á móti og fimm með. Tillagan fól í sér að Jóni yrði veitt leyfi til eins árs og væri veitingatíminn frá klukkan 12 á hádegi til klukkan 1 að nóttu virka daga og frá klukkan 12 á hádegi til klukkan 3 á föstudögum og laugardögum, að helgidögum undanskyldum. Böðvar Jónsson (D), Ríkharður Ibsen (D), Gunnar Oddsson (D), Þorsteinn Árnason (B) og Kjartan Már Kjartansson (B) greiddu atkvæði með tillögunni en atkvæði gegn henni greiddu Íris Jónsdóttir (D), Ellert Eiríksson (D), Jóhann Geirdal (J), Kristján Gunnarsson (J), Kristmundur Ásmundsson (J) og Sveindís Valdimarsdóttir (J). Síðari tillagan hljóðaði á þá leið að veita leyfið til eins árs og að vínveitingatími yrði takmarkaður við klukkan 12 á hádegi til klukkan 20 alla daga, aðra en helgidaga. Gunnar Oddsson, Íris Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Kjartan Már Kjartansson greiddu atkvæði með tillögunni, á móti voru: Jóhann Geirdal, Kristmundur Ásmundsson, Kristján Gunnarsson og Sveindís Valdimarsdóttir. Þrír sátu hjá, þeir Þorsteinn Árnason, Böðvar Jónsson og Ríkharður Ibsen. Niðurstaðan varð sú að báðar tillögur voru felldar og Jóni þar með synjað um áfengisveitingaleyfi. Þrjár bókanir og eitt lögfræðiálit var lagt fram á bæjarstjórnarfundinum á þriðjudag varðandi áfengisveitingaleyfi Jóns M. Harðarsonar veitingamanns. Ellert Eiríksson bæjarstjóri lagði fyrstur fram bókun og í henni kemur fram að Jón M. Harðarson hafi öll tilskilin gögn. Bæjarstjóri lagði til að Jóni yrði veitt leyfi í eitt ár og heimilaður veitingatími yrði frá klukkan 12 til klukkan 20 dag hvern. Í bókuninni kemur jafnframt fram að Ellert sé ekki hlynntur slíkri starfsemi og segir: „Fylgifiskur slíkrar starfsemi víða um lönd er fíkniefnaneysla, sala og vændi. Í þessu tilfelli eru engar sannanir um slíkt. Hins vegar má leggja að því líkur að slíkt muni koma í kjölfarið, þar sem enginn eðlismunur er á því sem hér fer fram og annarsstaðar þar sem slík starfsemi á sér stað... Þar sem um gífurlega áhættusama starfsemi er að ræða á vafinn að falla frekar á veitingamanninn en ekki bæjarbúa, og ber því að takmarka veitingatíma með hliðsjón af því.” J-listinn lagði einnig fram bókun og þar segir m.a.: „Í reglugerð nr.177 frá 17.mars 1999 segir að þegar sveitarstjórn hefur móttekið umsagnir þessar [innskot blm. frá brunavörnum, heilbrigðiseftirliti o.fl.] metur hún hvort efni séu til að gefa út leyfi, með hvaða skilyrðum og til hve langs tíma...Það er skoðun okkar jafnaðarmanna að rekstur umrædds veitingastaðar og sú starfsemi sem tengist honum sé ekki til þess fallin að stuðla að bættri siðferðiskennd hér í bæ. Þvert á móti teljum við miklar líkur á að þessi starfsemi grafi undan siðferði og auki vímuefnavandann... Við höfnum því þeirri umsókn sem hér er til umfjöllunar.” Kjartan Már Kjartansson sagði í bókun sinni að í lögum um veitingu vínveitingaleyfa væri ekki talað um að tegund skemmtunar á veitingastöðum ætti að hafa áhrif á leyfisveitingar. „Ef svo væri hefði umsækjandi þurft að gera grein fyrir fyrirhugaðri skemmtidagskrá einhvers staðar á umsóknarferlinu. Þess var ekki krafist. Umsækjandi valdi hins vegar að greina frá fyrirhugaðri starfsemi í fjölmiðlum. Hefði hann ekki gert það er líklegt að umsækjanda hefði verið veitt leyfið athugasemdalaust... Því hef ég ákveðið að greiða atkvæði með umsókninni og treysti því að lögregla og aðrir, sem hafa þann starfa að fylgjast með því að lögum sé framfylgt í sveitarfélaginu, grípi í taumana ef á veitingastaðnum verði stunduð einhver sú starfsemi sem brýtur í bága við lög og reglur.” Bæjarstjóri fór þess á leit við Lárentsínus Kristjánsson lögmann hjá Lögfræðistofu Suðurnesja að hann skilaði lögfræðiáliti varðandi nektardansstaði. Í álitinu segir: „...sveitarfélag hafi ekki heimild að lögum til að koma í veg fyrir rekstur slíkra staða innan marka sveitarfélagsins hvorki sértækt né almennt með þá setningu reglna sem gilda ættu almennt á sviðinu. Á það þannig við hvort sem litið er til skilyrða varðandi staðsetningu slíkra staða, skilyrði varðandi hæfni, menntun eða kunnáttu þeirra sem sjá um slík skemmtiatriði (eða „listviðburði”) eða skilyrði um starfsemi sem þessa í sjálfu sér, þ.e. að óheimilt væri t.d. að bjóða upp á slík skemmtiatriði eða að slíkum atriðum væri sniðinn sérstakur stakkur sem hugnaðist sveitarfélaginu.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024