Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Nauðsynlegt að styðja betur við Grindvíkinga í húsnæðismálum
Ljósmynd: Golli
Þriðjudagur 12. mars 2024 kl. 10:43

Nauðsynlegt að styðja betur við Grindvíkinga í húsnæðismálum

Bæjarstjórn Grindavíkur, Félag eldri borgara í Grindavík, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur hafa sent frá sér samstöðuyfirlýsingu þess efnis að frekari stuðningur við Grindvíkinga sé nauðsynlegur. Staðan er flestum gríðarlega erfið þegar þeir leita leiða til að koma sér fyrir á fasteignamarkaðnum.

Í yfirlýsingunni er farið þess á leit við yfirvöld að Grindvíkingar njóti sömu kjara og fyrstu kaupendur og fái helmingsafslátt af stimpilgjöldum vegna fasteignakaupa. Þá er beðið um að heimild verði veitt til nýtingar á séreignasparnaði við kaup á fasteign líkt og heimilt er fyrir fyrstu kaupendur. Að lokum biðja samstöðuaðilar um að öllum Grindvíkingum verði veitt heimild til að sækja um hlutdeildarlán líkt og fyrstu kaupendur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samstöðuyfirlýsing frá hagsmunasamtökum í Grindvíkinga til yfirvalda

Íbúar Grindavíkur eru komnir óvænt og óundirbúið á erfiðan íbúðamarkað og ljóst er að yfirvöld þurfa að ganga enn lengra til að styðja við Grindvíkinga á þessum fordæmalausu tímum.

Fyrirsjáanlegt er töluvert tap á fjármunum þrátt fyrir sterka eiginfjárstöðu fasteignaeigenda í bæjarfélaginu auk þess sem íbúar hafa orðið fyrir miklum útgjalda aukningum í kjölfar náttúruhamfaranna.

Grindvíkingar streyma nú á fasteignamarkað sem var nú þegar þaninn og eftirspurn er há miðað við framboð eigna, leiðir það óhjákvæmilega til hækkunar íbúðaverðs í þeim þéttbýliskjörnum sem sótt er í.

Lánakjör eru einnig óhagstæð og verðbólga hærri en best væri á kosið, það þyngir rekstur og leiðir af sér háar afborganir fasteignalána.

Bæjarfélagið var eftirsóknarvert til búsetu, fyrir unga sem aldna, bæjarsjóður vel stæður og mikill metnaður lagður til samfélagslegra verkefna fyrir alla aldurshópa.

Barnmargar fjölskyldur sem hafa sniðið sér stakk eftir vexti í fjármálum heimila, bjuggu við velsæld í vel settu bæjarfélagi þar sem húsnæðisverð var hagstætt.

Í Grindavík voru íþróttir og tómstundir niðurgreiddar auk skólamáltíða, skólasels og leikskóla og standa fjölskyldur nú frammi fyrir því að fjárfesta í efstu hæðum greiðslugetu til að fá hentugt húsnæði fyrir fjölskyldustærð.

Til að ná markmiðum um uppkaup húsnæðis í að eyða óvissu Grindvíkinga og verja fjárhag og velferð þeirra þarf að koma til frekari stuðnings.

Þar er nærtækast að horfa til úrræða sem fyrstu kaupendur njóta:

  •  Helmingsafslátt af stimpilgjöldum
  •  Skattfrjálsa úttekt á uppsöfnuðum séreignarsparnaði til útborgunar
  •  Aðgengi að hlutdeildarlánum þó Grindvíkingar hafi átt fasteignir áður.

Seðlabanki Íslands hefur núþegar sýnt stuðning í verki og rýmkað greiðslubyrðahlutfall fyrir Grindvíkinga samsvarandi fyrstu kaupendum. Við undirrituð förum þess á leit við yfirvöld að styðja enn betur við Grindvíkinga og velferð þeirra.

Stimpilgjöld

• Að Grindvíkingar njóti sömu kjara og fyrstu kaupendur í skilningi laga nr. 138/2013 um stimpilgjöld og fá þannig helmingsafslátt af gjaldskyldum skjölum vegna fasteignakaupa.

Skattfrjáls úttekt séreignasparnaðar
• Að Grindvíkingar fái að taka út uppsafnaðan séreignasparnað við kaup á fasteign líkt og heimilt er fyrir fyrstu kaupendur.

Hlutdeildarlán
• Að öllum Grindvíkingum verði heimilt að sækja um Hlutdeildarlán líkt og fyrstu kaupendur.

Bæjarstjórn Grindavíkur
Félag eldri borgara í Grindavík
Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur
Verkalýðsfélag Grindavíkur