Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 5. apríl 2000 kl. 15:33

Nauðsynlegt að hf-væða Hitaveituna

Hálfs milljarðs króna hagnaður á rekstri Hitaveitu Suðurnesja: Rúmlega hálfs milljarðs króna hagnaður varð á rekstri Hitaveitu Suðurnesja á síðasta ári og er þetta fimmtánda árið í röð sem fyrirtækið skilar hagnaði. Átta ár þar á undan hafði verið tap. Júlíus Jónsson, fostjóri sagði mikla umbrotatíma framundan í orkumálum landsins og því mikilvægt fyrir Hitaveitu Suðurnesja að vera tilbúna til að takast á við breytta tíma. Það væri því fagnaðarefni að stærsti eignaraðilinn, Reykjanesbær, skuli hafa haft frumkvæði að undirbúningi um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. „Þegar um sex eignaraðila er að ræða og ekkert ákveðið og skilvirkt form til fyrir slíkum sameiginlegum ákvörðunum, þá verða leiðir óljósar og vinnan ef til vill ómarkviss. Í hinum almenna lagaramma í rekstri fyrirtækja væri þetta allt mun einfaldara. Þess vegna vonast ég til þess að þær viðræður sem nú fara væntanlega að hefjast milli sveitarfélaganna um rekstrarform Hitaveitu Suðurnesja geti jafnfram orðið vettvangur til að fá fram viðbrögð við hugmyndum umsamvinnu og samruna við önnur orkufyrirtæki og sveitarfélög“, sagði Júlíus. Í skýrslu hans á fundinum kom hann oft inn á þetta atriði gagnvart ýmsum málum sem fyrirtækið stæði fyrir í dag. Til að mynda benti Júlíus á erfiða samkeppni um iðnaðar- og tæknimenntaða starfsmenn, t.d. hefði ekki gengið neitt í því að fjölga rafvirkjum í fyrirtækinu. Svigrúm væri ekki til staðar í launamálum á meðan núverandi fyrirkomulag væri á rekstri fyrirtækisins. Tíu milljóna skýrsla Júlíus gagnrýndi mjög hvernig staðið væri að skipulagi virkjunar- og orkumála á landinu en það hefur hann gert á undanförnum aðalfundum H.S. Hann minnti á bókun stjórnar fyrirtækisins frá árinu 1998 þar sem lýst er furðu á skipan ráðgjafanefndar vegna stofnunar fyrirtækis sem annast skuli flutning raforku á „háspennu” til dreifiveitna. Einnig gagnrýndi Júlíus hvernig ráðamenn landsins gerðu ráð fyrir greiningu Landsvirkjunar í tvö eða fleiri hlutafélög auk eignarhaldsfélags. Þá væri fyrirtækið dregið á asnaeyrunum hvað varðar heimild til rannsókna á öðrum háhitasvæðum, s.s. í Trölladyngju. Júlíus sagði að heildarkostnaður við skýrsluvinnu vegna mats á umhverfisáhrifum jarðhitavinnslu á Reykanesi stefni harðbyri yfir tíu milljónir. „Þetta eru kaldar kveðjur því verulegt samráð hafði verið haft við Skipulagsstofnun meðan á vinnslu skýrslunnar stóð auk þess sem samráðsfundir hafa verið haldnir. Miklar fjárfestingar Fjárfestingar Hitaveitu Suðurnesja hafa ekki verið jafn miklar á einu ári síðan 1978 en þær voru alls tæpur 2,1 milljaður króna. Þar vegur stærst nýtt orkuver í Svartsengi og tenging á fjórum gufuholum, borun holu á Reykjanesi og bygging Eldborgar, glæsilegs kynningar- og mötuneytishúss í Svartsengi. Rekstrartekjur Hitaveitunnar voru rétt rúmir tveir milljarðar króna. Í fyrsta skipti í áratugi voru viðskipti varnarliðsins innan við 50% en þegar mest lét voru þau um 60%. Magnesíum í gangi Júlíus greindi frá því að vegna byrjunarerfiðleika í rekstri tilraunaverksmiðju fyrir magnesíum í Ástralíu hafi starfsemi Íslenska magnesíumfélagsins verið lítil á árinu en nú væri að birta til. Gert væri ráð fyrir að bygging verksmiðju í Ástralíu hæfist á árinu og í kjölfarið hæfust ítarlegar athuganir á byggingu hér á landi sem tæki 2-3 ár, þannig að að vonir stæðu til að unnt væri að taka ákvörðun um byggingu hér á Reykjanesi u.þ.b. 2004 og að framleiðsla gæti þá hafist 2006-7. „Það er því síður en svo nokkurn bilbug að finna á mönnum og áhugi Ástralanna á Íslandi virðist fara vaxandi ef eitthvað er. Við vonum svo, að þegar upp verði staðið reynist sígandi lukka heilladrýgst eins og svo oft áður”. Allt á fullt í saltinu Á síðasta ári var gengið frá samningum við kanadíska fjárfesta um kaup þeirra á öllum eignum til saltvinnslu á svæðinu af HS. „Standa nú vonir til þess að fullur rekstur komist á að nýju og er þegar hafin umfangsmikil vinna við endurbætur á verksmiðjunni. Vonandi fara þar öll hjól að snúast með vorinu þannig að verksmiðjan geti orðið enn einn hlekkur í atvinnulífi Suðurnesja og góð auglýsing fyrir nýtingu náttúruauðlinda svæðisins.“, sagði Júlíus.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024