Nátthagakriki allrar athygli verður
Smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi allt þetta ár í Nátthagakrika. Hann er vestast í Fagradalsfjalli, þar sem vinsæl gönguleið liggur upp á Fagradalsfjall og að gosstöðvunum sem gusu í hálft ár árið 2021.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að Nátthagakriki sé allrar athygli verður.
„Þessir skjálftar sem þar eru gætu markað dýpra uppstreymissvæði kvikunnar að neðan, þeir liggja yfirleitt frekar djúpt,“ segir Magnús Tumi.
Þarna gæti því kvikan verið að streyma upp í grynnra kvikuhólfið undir Svartsengi sem síðan hefur leitt til fimm eldgosa og tveggja kvikuhlaupa
„Þetta eru auðvitað getgátur, en það ekki aflögun þarna fyrir ofan sem bendir til þessa staðar sem svæðis þar sem kvika er að safnast fyrir,“ segir Magnús Tumi.
Engin merki um kvikusöfnun við Reykjanestá
Í upphafi vikunnar varð jarðskjálfta við Reykjanestá og einnig nokkra kílómetra úti í sjó suðvestur af Reykjanesi á Reykjaneshryggnum. Aðspurður um þá virkni sagði Magnús Tumi að hún tengist varla virkninni við Sundhnúk nema óbeint.
„Það er ekki ástæða til að tengja hana við kvikusöfnun á þessum stöðum. Engin merki um slíkt hafa sést á Reykjanesi í GPS mælingum,“ segir Magnús Tumi og bætir við:
„Það er vissulega rétt að miklar hreyfingar á einum stað geta framkallað skjálfta annarstaðar þar sem er einhver spenna fyrir. Það getur ekki talist vísbending um að kvika sé á hreyfingu á þeim stöðum eða þeir staðir séu að búa sig undir gos“.
Magnús Tumi segir gott dæmi um skjálfta af þessu tagi í kjölfar umbrota voru skjálftahrinur í Esjufjöllum í kjölfar Gjálpargossins 1996, og mikil skjálftavirkni í Tungnafellsjökli og Kverkfjöllum samfara og í kjölfar umbrotanna í Bárðarbungu haustið 2014.