Nánast stöðugt hraunrennsli í tæpa tvo mánuði
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gefið út nýjar upplýsingar um mælingar á hraunflæði frá eldgosinu í Fagradalsfjalli. Nýjar mælingar voru gerðar á laugardag 26. júní, en þá flaug Garðaflug með Hasselblad myndavél Náttúrufræðistofnunar og hafa nú verið unnin ný landlíkön af Fagradalshrauni eftir myndunum.
Meðalhraunrennslið yfir tímabilið 11.-26. júní (15 dagar) er 13 m3/s sem er svipað og verið hefur síðan snemma í maí, en þó hæsta tala sem sést hefur það sem af er gosi. Munurinn á þessari tölu og þeim sem komið hafa undanfarnar vikur er hinsvegar ekki marktækur. Hraunrennslið hefur því haldist nánast stöðugt í tæpa tvo mánuði, að meðaltali tvöfalt meira en var fyrstu sex vikurnar.
Hraunið mælist nú tæplega 80 millj. rúmmetrar og flatarmálið 3,82 ferkílómetrar. Aukning í flatarmáli á dag er ívið minni en var milli síðustu mælinga (2.-11. júní) (um 40.000 fermetrar á dag í stað 60.000 m2/dag). Á móti kemur að þykknun í Meradölum austanverðum hefur verið 10-15 metrar og og 15 metrar í Nátthaga sunnanverðum. Mest hefur þykknunin þó verið í Geldingadölum sunnan og austan við gíginn, um 20 metrar.
Yfirlit um hraunflæði (uppfært 28. júní)
Eins og áður hefur komið fram má skipta gosinu í þrjú tímabil:
Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli. Rennslið lækkaði úr 7-8 m3/s í 4-5 m3/s á tveimur vikum.
Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s.
Þriðja tímabilið hefur nú staðið í bráðum tvo og hálfan mánuð. Á þessu tímabili hefur virknin öll verið í einum og sama gígnum. Fyrstu tvær vikurnar óx hraunrennsli en hefur verið nokkuð stöðugt síðan í byrjun maí.
Gosið í Fagradalsfjalli er um margt frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss.
Í Fagradalsfjalli virðist þessu vera nokkuð öðruvísi varið. Þar er svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði miklu um kvikuflæðið. Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð. Aukning með tíma bendir til þess að rásin hafi víkkað heldur með tímanum, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. Ekki er að sjá að þrýstingur í upptökum hafi minnkað að ráði og því óx flæðið þegar rásin víkkaði. Engin leið er á þessari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið muni halda áfram að aukast.
Stærð
Besta leiðin til að meta stærð gossins í Fagradalsfjalli er að kortleggja hraunið og reikna rúmmál þess á hverjum tíma. Þannig fæst meðalhraunrennsli milli mælinga. Rúmmál hraunsins á hverjum tíma og hraunrennsli eru sýnd á meðfylgjandi línuritum auk þess sem sýndar eru niðurstöður efnagreininga á kvikunni og reiknuð losun gass frá eldgosinu.