Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 10. október 2000 kl. 09:44

Námskeið í gerð viðskiptaáætlana

Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stendur fyrir námskeiði um stofnun eigin fyrirtækis en það fer fram í fundarsal MOA, að Hafnargötu 57, 2. hæð og hefst 24. október nk. Námskeiðinu lýkur 11. nóvember. Helga Sigrún Harðardóttir, atvinnumálafulltrúi Reykjanesbæjar, hefur ásamt fleirum staðið að undirbúningi þessa námskeiðs. „Þátttakendur vinna viðskiptaáætlun í tengslum við sína hugmynd og kennararnir fara í gegnum, markaðs- og sölumál, áætlanagerð, bókhald, skattamál og fjármögnunarleiðir. Það má kannski líkja þessu við undirbúningsnámskeið sem verðandi foreldrar fara í gegnum. Það þarf að glöggva sig á ákveðnum hlutum áður en að fæðingunni kemur“, segir Helga Sigrún til útskýringar. Nú þegar hafa tíu áhugasamir einstaklingar haft samband við MOA vegna námskeiðsins. „Við höfum pláss fyrir fimmtán svo það er enn sóknartækifæri“, segir Helga og bætir við að þeir sem hafi haft samband séu bæði fólk sem rekur fyrirtæki eða hefur áhuga á að hefja einhvers konar rekstur. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Ásbjörn Jónsson lögfræðingur, Guðmundur Kjartansson endurskoðandi, Magnea Guðmundsdóttir markaðsfræðingur og Sigurður Garðarsson verkfræðingur. Þegar Helga Sigrún er spurð að því hvort slíkt námskeið eigi eftir að hafa áhrif á atvinnulíf í bæjarfélaginu þá svarar hún því til að þetta eigi kannski ekki eftir að bylta því en eigi samt sem áður eftir að hafa einhver áhrif. „Öruggir stjórnendur sem gera raunhæfar áætlanir eru mun líklegri til að eiga langlíf fyrirtæki en þeir sem taka stöðugt of stóra áhættu og vita ekki hversu langt þeir mega ganga t.d. í fjárfestingum. Þá er það einnig auðveldara fyrir stjórnanda að halda um stjórnartaumana þegar þeir vita nákvæmlega hvert ferðinni er heitið og kunna að bregðast við þeim veðrum sem þeir kunna að hljóta á leiðinni“, segir Helga Sigrún. Margir spennandi hlutir eru í farvatninu á vegum MOA, t.d. námskeið í nýsköpunarstjórnun sem haldið verður í nóvember. Auk þess verður boðið upp á alþjóðleg samvinnuverkefni af ýmsum toga t.d. um verslun og viðskipti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024