Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Námsfólk í vandræðum með að fá vinnu
Fimmtudagur 7. maí 2009 kl. 13:38

Námsfólk í vandræðum með að fá vinnu

-búist við sprengju á atvinnuleysisskrá um miðjan mánuð


Mikill fjöldi námsfólks sér ekki fram á að fá störf í sumar vegna ástandsins á vinnumarkaði. Yfir 1900 manns eru nú á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum. Ketill Jósefsson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, segist eiga von á „sprengingu“ um það leyti sem skólum lýkur.
Nesprýði ehf hefur venjulega ráðið til sín 80 - 90 manns á sumrin, aðallega námsfólk. Fyrirtækið sagði upp öllu sínu starfsfólki um síðustu mánaðamót og mun ekki ráða nema örfáa námsmenn í þau verkefni sem fyrirtækið hefur í sumar.


Alls fengu um 100 manns á Suðurnesjum uppsagnarbréf um síðustu  mánaðamót frá 12 fyrirtækjum. Þeirra á meðal voru 50 starfsmenn Nesprýðis. Jón B. Ólsen, framkvæmdastóri fyrirtækisins, segir þessar uppsagnir verða endurskoðaðar í haust með tilliti til verkefnastöðunnar á þeim tíma. Langflestir starfamannanna eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Um varúðarráðstöfun sé einnig ræða vegna ríkjandi óvissu um framhald verkefna á svæðinu. Hann hafi ekki áhuga á því að standa uppi með það einn góðan veðurdag að geta ekki greitt laun. „Við viljum því  hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ sagði Jón.

Að sögn Ketils Jósefssonar, forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, hafa ekki borist frekari fréttir af hópuppsögnum.  „Skólafólkið er hins vegar ekki komið inn ennþá en það er farið af stað í atvinnuleit. Um miðjan maí má því búast við sprengju,“ segir Ketill.
Sem dæmi um þetta má nefna að Nesprýði hefur ráðið 80 – 90 námsmenn í vinnu á sumrin. Þeir verða ekki nema örfáir í sumar, að sögn Jóns.

Dregið hefur verulega úr hópuppsögnum og hægst á nýskráninum á atvinnuleysisskrá. Ketill var inntur eftir því hvort það táknaði að farið væri að sjá til botns.
„Ég þori varla að segja til um það fyrr en í haust. Sumarið gefur yfirleittt ekki rétta mynd af ástandi á vinnumarkaði því þá verða til mörg tímabundin störf  t.d. í afleysingum. Sú hreyfing sem er inn og út af skránni núna felst að mestu leyti í afleysingastörfum. Þetta er milklu minni hreyfing en maður á að venjast á þessum árstíma,“ sagði Ketill.
---

VFmynd: Nesprýði hefur verið öflugur vinnuveitandi námsfólks yfir sumartímann. Nú er staðan breytt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024