Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nálægð við íbúabyggð umhugsunarefni
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fundaði í gær um mengun frá United Silicon.
Fimmtudagur 6. apríl 2017 kl. 12:00

Nálægð við íbúabyggð umhugsunarefni

Umhverfisráðherra segir áhyggjuefni að mengun í Helguvík muni væntanlega aukast með fleiri verksmiðjum

„Það er jákvætt að Alþingi skuli taka þetta mál upp. Það sýnir að lætin í okkur hafa skilað sér,“ sagði Dagný Halla Ágústsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ í gær, eftir fund Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um mengun frá United Silicon. Á fundinum voru málefni kísilverksmiðjunnar rædd frá ýmsum hliðum og sátu fyrir svörum nefndarinnar þau Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon, Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, Þórólfur Júlían Dagsson, fulltrúi íbúa og Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.

Kísilverksmiðjan tók til starfa um miðjan nóvember síðastliðinn og síðan þá hafa íbúar í næsta nágrenni sumir hverjir fundið fyrir óþægindum í öndunarvegi vegna mengunar. Þórólfur Júlían sagði á fundinum að ljóst væri að svæðið henti engan veginn undir stóriðju. Keflavíkurflugvöllur sé í næsta nágrenni, fjöldinn allur af bílaleigum og gríðarleg bílaumferð um Reykjanesbraut. „Við viljum að verksmiðjunni verði lokað. Mér heyrist fólk hérna gera sér grein fyrir því að hér hafa verið gert risastór mistök,“ sagði Þórólfur á fundinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í gær. Frá hægri á myndinni má sjá Helga Þórhallsson, forstjóra United Silicon, Sigrúnu Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Friðjón Einarsson, formann bæjarráðs Reykjanesbæjar og Þórólf Júlían Dagsson, fulltrúa íbúa. VF-mynd/dagnyhulda

Á næstunni mun óháður aðili gera verkfræðilega úttekt á rekstri og hönnun verksmiðjunnar. Að sögn Helga Þórhallssonar, forstjóra United Silicon, tekur um eitt til tvö ár fyrir rekstur verksmiðju sem þessarar að komast í réttan farveg. Nú er beðið eftir nýrri síu sem minnka á lyktarmengun og vonast Helgi til að hún komi innan tveggja til þriggja mánaða.

Verksmiðjan er staðsett rúmlega kílómetra frá íbúabyggð og var nálægðin rædd á fundinum í gær. Í máli Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun kom fram að í reglum um hollustuvernd segir að íbúasvæði skuli ekki vera innan þynningarsvæðis en slíkt er ekki skilgreint í kringum kísilverksmiðjuna. Þynningarsvæði þýðir að mengun má fara yfir mörk. Sigrún sagði návígið við íbúabyggð umhugsunarefni. „Þetta var áhyggjuefni í ferlinu og það var bent á það. Þetta er eitthvað fyrir okkur að hugsa um,“ sagði Sigrún. Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, tók undir með Sigrúnu og sagði fulla ástæðu til að endurskoða reglur um fjarlægð á milli stóriðjusvæða og íbúabyggða. „Væntanlega mun íbúabyggðin stækka og mengun aukast á svæðinu enda eru uppi áform um fleiri verksmiðjur þar. Þetta er því gríðarlegt áhyggjuefni,“ sagði umhverfisráðherra.