Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Næsti atvinnumálafundur Suðurnesja verður við Alþingishúsið
Föstudagur 26. ágúst 2011 kl. 13:58

Næsti atvinnumálafundur Suðurnesja verður við Alþingishúsið


Næsti fundur um atvinnumál á Suðurnesjum verður haldinn við Alþingishúsið við Austurvöll. Það verður kraftmikill og vel undirbúinn fundur, þar sem gert verður ráð fyrir fjölmenni, ef marka má orð sem féllu á fundi um atvinnumál sem Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi héldu í gær.


Á fundinum var farið yfir stöðuna í atvinnumálum á Suðurnesjum. Farið var yfir þau verkefni sem eru í gangi þessar vikurnar og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu vikum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er ljóst eftir fundinn að mikil deyfð er yfir atvinnulífinu á Suðurnesjum og verkefnastaða margra fyrirtækja er bágborin. Haustið býður ekki upp á mikið af verkefnum og næstu 8-10 vikur munu skera úr því hjá mörgum hvort reksturinn lifir eða ekki.


Vonir eru bundnar við framkvæmdir í Helguvík við byggingu kísilverksmiðju en einnig er vonast til að endurnýjun raflagna í byggingum sem Landhelgisgæslan hefur nú yfir að ráða á Keflavíkurflugvelli skapi störf. Einnig eru vonir til þess að ISAVIA ráðist einnig í endurnýjun rafkerfis en það gæti verið 300 milljóna króna sprauta inn í atvinnulífið á svæðinu.


Nefnd voru nokkur verkefni sem verið hafa í farvatninu um nokkurt skeið og eins fyrirhugaðar framkvæmdir sem nefndar hafa verið í fréttum síðustu daga, s.s. varaaflstöð fyrir gagnaver á Ásbrú, fiskeldi við Reykjanesvirkjun og þá vonast menn til að niðurstaða gerðardóms í máli Norðuráls og HS-Orku leiði til þess að framkvæmdir komist fyrir alvöru á stað aftur í Helguvík.


Á fundinum kom fram gagnrýni hjá fundarmönnum á bankana og aðkomu þeirra að atvinnulífinu á Suðurnesjum. Einnig var rætt um það að fyrirtæki á Suðurnesjum leituðu oft út fyrir svæðið eftir þjónustu í stað þess að fyrirtækin á svæðinu hefðu með sér meira samstarf og hefðu viðskipti sín á milli.


Fram kom á fundinum að landsmálafjölmiðlar sýndu Suðurnesjum og því sem þar er að gerast lítinn áhuga og var vilji til þess á fundinum að koma upp vettvangi þar sem Suðurnesjamenn gætu látið rödd sína heyrast á landsvísu. Var það orðað þannig að víða væri verið að tísta á Suðurnesjum. Safna yrði þessu tísti saman og virkja það þannig að úr yrði öskur.



Myndir frá fundi SAR í Reykjanesbæ í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson